Finnur Einarsson, sem lést ásamt Jóhönnu Sigríði Sigurðardóttur, konu sinni, í vélhjólaslysi á Kjalarnesi í sumar, hafði þungar áhyggjur af lélegu malbiki á vegum landsins. Þetta segir dóttir hans. Slysið hefur verið rakið til galla í klæðningu sem lögð var á veginn þremur dögum fyrr.

„Pabbi var mjög meðvitaður um þetta. Þetta var eitthvað sem hann hafði bölvað í sand og ösku, og hann lá ekkert á skoðunum sínum um malbik og vegi. En hann var mjög meðvitaður um þetta,“ segir Heiðrún Finnsdóttir í viðtali í Kastljósi.

Faðir hennar hafi verið vélhjólamaður af lífi og sál, ólíkt stjúpmóður hennar. 

„Ekki Hanna Sigga mín. Hún var það ekki, en hún gerði þetta svolítið fyrir pabba. Hún var örlítið hrædd á hjólinu og stóð ekki á sama um hraða og svoleiðis, en hún og pabbi voru sammála um að hún skyldi reyna, og hún hafði nýlega tekið ákvörðun um að hætta að vera hrædd og drífa sig með í ferðirnar,“ segir Heiðrún.  

Hún segir erfitt að sætta sig við að hafa misst þau, 54 og 53 ára gömul: „Þetta er fólk í blóma lífsins.“

Stórhættulegt malbik

Slysið varð 28. júní síðastliðinn, skammt hjá munna Hvalfjarðarganganna. Mikil hálka hafði myndast á veginum vegna þess að bik blæddi upp úr klæðningunni. Slysið varð þegar hjól Finns og Jóhönnu Sigríðar lenti í árekstri við húsbíl. Klæðningin hafði verið lögð þremur dögum áður, en reyndist ekki standast kröfur Vegagerðarinnar.

Fjallað var um málið í síðasta þætti Kveiks. Þar kom meðal annars fram að vegfarendur hefðu reynt að gera Vegagerðinni viðvart um hættuna á veginum, án árangurs. 

Heiðrún kveðst ekki skilja hvernig Vegagerðinni og verktökum hennar hafi dottið í hug að skilja við vegakaflann í þessu ástandi: „Það ætti öllum að vera ljóst að þarna er stórhættulegt malbik á ferðinni því það er spegilslétt. Bílarnir sem stoppuðu í stutta stund tóku tjöruna með sér þegar þeir fóru af stað. Þetta átti ekkert að fara fram hjá svona reynsluboltum.“

Breyttar verklagsreglur

Hún hyggst leita réttlætis fyrir foreldra sína, og vill að verklagsreglum við vegagerð á Íslandi verði breytt. 

„Ég myndi vilja að eftirlitið yrði frá samgönguráðuneytinu og algerlega óháð Vegagerðinni,“ segir hún. „Það segir sig sjálft að þegar þú býður út verkið og boðið er í það fær lægstbjóðandi verkið. Og verkfræðistofan sem tekur út og á að hafa eftirlit með verkinu fær borgað frá Vegagerðinni. Og það er hagur þeirra að fá aftur vinnu hjá þeim.“

Heiðrún kveðst vantreysta vegum landsins eftir slysið, og ekur helst ekki í bíl: „Ég er hrædd í bílum og treysti ekki nýjum malbiksköflum.“