Dómsmálaráðherra mælti í kvöld fyrir róttækum breytingum á lögum um mannanöfn. Kona, sem hefur ekki viljað kenna sig við foreldra sína, fagnar því að geta mögulega loks tekið upp ættarnafn.
Verði frumvarpið samþykkt verður mannanafnanefnd lögð niður, fólk fær að bera það nafn sem það kýs, taka má upp ættarnafn og engin takmörk verða á hversu mörg nöfn má bera. Mannanafnanefnd hefur undanfarin ár fengið á milli hundrað og hundrað og tuttugu nöfn á sitt borð og hafa um sjötíu prósent þeirra verið samþykkt.
Formanni nefndarinnar líst þokkalega á frumvarpið og sér enga vankanta á því við fyrstu sýn. Þá hafi það ekki mikil áhrif að leggja niður sjálfa nefndina, en Þjóðskrá fær samkvæmt frumvarpinu vald til að hafna nöfnum.
„Mér og fleirum hefur þótt mikil tilhneiging til að líta svo á að mannanafnanefnd sé einhvers konar talsmaður laganna. Dómsmálaráðherra var í viðtali í morgun þar sem hún talaði um að fólk hefði verið í stappi við nefndina. En það eru auðvitað lögin sem Alþingi samþykkti, Alþingi þar sem hún situr,“ segir Aðalsteinn Hákonarson, formaður Mannanafnanefndar.
Aðalsteinn segist ekki vita til þess að í öðrum löndum séu starfandi mannanafnanefndir en að víða séu lög um mannanöfn og að einhver í stjórnkerfinu leyfi eða hafni skráningunni. Hann telur ekki of langt gengið með nýju lögunum og segir þegar hafa verið mikið svigrúm til að velja eiginnöfn. Hins vegar hafi verið æskilegt að ráðast í breytingar á ættarnöfnum sem nú er gert.
Frumvarpið hefur áhrif á marga, til að mynda Eydísi Rán og systur hennar Ingibjörgu Sædísi. „Við áttum mjög erfiða æsku og erum í þannig stöðu að við viljum eins og staðan er ekki vera kennd við hvorugt foreldrið okkar,“ segir Eydís.
Systurnar hafa viljað taka upp ættarnafn í nokkur ár en ekki fengið leyfi til þess. „Mér finnst það bara svo furðulegt. Það er svo skrýtið. Hvers vegna er ríkið að vasast í því?“ segir Eydís.
En hvað tekur við verði frumvarpið samþykkt?
„Þá ætlum við bara að klára að ákveða okkur nafn og svo ætlum við að sækja um nafnið og halda nafnaveislu,“ segir hún.
„Menningarlaus frjálshyggja“
Umræða um frumvarpið stóð yfir til að verða klukkan átta á Alþingi þegar málinu var frestað. Formaður Miðflokksins segir að hér á landi hafi ríkt rík hefð fyrir mannanöfnum og að hún hafi vakið heimsathygli.
„Það hefur verið ágætis samstaða um þetta á Íslandi, þannig að fara út í þetta núna, menningarlausa frjálshyggju á þessum tíma, að fara að eyða kröftum okkar að rífast um þetta. Ég tala nú heldur ekki um þegar verið er að reyna að setja inn í stjórnarskrá ákvæði um íslensku. Þá minni ég á það sem forsætisráðherra sagði hér og fleiri þingmenn þegar við kolfelldum sambærilegt frumvarp frá Viðreisn: það þarf að skoða þetta miklu betur,“ segir Sigmundur Davíð.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra er ósammála þessu.
„Ég skil ekki að þeir sem leggjast gegn þessum breytingum - þar sem er farinn viss millivegur og frumvarpið er ekki sambærilegt þeim málum sem hafa áður komið - standi í vegi fyrir því að til dæmis fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi af hendi beggja foreldra ætli ekki að leyfa þeim að breyta um kenninafn. Það hlýtur að vera vilji okkar að búa þannig um hnútana að lögin séu þannig að það sé sátt um þau og að fólki líði vel með þau. Frelsi fólks til að ráða eigin nafni hlýtur að vera ríkari en okkar til að takmarka þann rétt,“ sagði Áslaug Arna.