Hlutdeildarlán fyrir lágtekjufólk verða rædd á fundi velferðarnefndar Alþingis í fyrramálið. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að 400 lán á ári sé alltof lítið en hægt sé að byggja ódýrari íbúðir ef fólk vandar sig og braskar minna.

Eins og fjallað var um í fréttum í gær virðast afar fáar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu rúmast innan þeirra marka sem sett eru í reglugerðardrögum um hlutdeildarlán sem eiga að gera ungu eða tekjulágu fólki kleift að kaupa fyrstu íbúð. Enga vextir eða afborganir þarf að greiða af lánunum. 

Samkvæmt þeim má til dæmis ný stúdíóíbúð ekki kosta meira en 32 milljónir, íbúð með tveimur svefnherbergjum ekki meira en 49,5 og með þremur 54 milljónir að uppfylltum stærðarskilyrðum. 

Lögin taka gildi 1. nóvember. Miðað er við að 400 lán verði veitt á ári samtals að upphæð fjórir milljarðar króna.

400 lán á ári of lítið

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR var fyrir hönd ASÍ í starfshópnum sem undirbjó gerð laganna. Þau eru hluti af framlagi stjórnvalda til lífskjarasamninganna og voru aðilar vinnumarkaðarins með í ráðum. Ragnar Þór segir að 400 lán á ári sé alltof lítið. Og þótt fáar íbúðir á sölu megi finna núna sem passa í reglugerðina þá telur hann að vel sé hægt að byggja vandað og gott húsnæði innan reglugerðarrammans: 

„Þetta er bara spurning um vilja. Og ég held að þarna sé í rauninni bara hvati fyrir alla aðila til þess að bara að vanda sig, braska minna og þarna eru bara fullt af flottum verkefnum sem að ég held að byggingaiðnaðurinn sé að bíða eftir að komast í þar sem að er fyrirsjáanleg niðursveifla. Þannig að ég held að við ættum frekar að fagna þessu,“ segir Ragnar Þór.

Varðandi íbúðir sem nú eru á sölu segir Ragnar Þór hugsanlegt að þau gætu rúmast innan ramma hlutdeildarlána ef byggingaverktakar lækka verðið. Þau fyrirtæki sem bjóða nýjar íbúðir sem rúmast innan hlutdeildarlána þurfa að gera samning við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Ragnar Þór segir gott að þannig verði hægt að hafa eftirlit með byggingaverktökum. Hins vegar standi á sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu: 

„Nú þurfa bara sveitarfélögin að fara að gjöra svo vel að koma með hagkvæmar lóðir sem að falla undir þetta verkefni, sem verða ekki seldar hæstbjóðendum og lenda síðan í einhverju ævintýralegu braski þangað til að neytandinn situr uppi með íbúðir sem að hann hefur ekki efni á að kaupa eða reka,“ segir hann. 

Lilja Rafney: Ekkert sem segir að það sé dýrara að byggja í Reykjavík

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Samfykingarinnar, segir að margar spurningar kvikni þegar reglugerðin sé skoðuð og að nefndin skoði sérstaklega flækjustigið. Hlutdeildarlánin séu sennilega ekki ætluð fyrir íbúðir sem þegar hafi verið byggðar heldur þurfi að ráðst í uppbyggingu á ódýrum íbúðum.  

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist fyrst og fremst fagna því að fram sé komið úrræði til að hjálpa tekjulágum að eignast fyrstu íbúð. Verktakar ættu að leita lausna til að byggja hagkvæmt húsnæði: „Það ætti ekkert að vera dýrara að byggja í Reykjavík en á Selfossi, það er ekkert sem segir manni það.“