Mikil óánægja ríkir meðal kylfinga á höfuðborgarsvæðinu eftir að tilmæli bárust frá Golfsambandi Íslands í gær um að loka öllum golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdastjórinn segir ákvörðunina hafa verið erfiða og leiðinlega, sérstaklega í ljósi veðurs á höfuðborgarsvæðinu undanfarið.

Golfsamband Íslands sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem greint frá lokun golfvalla höfuðborgarsvæðisins til og með 19. október. Þá var þeim tilmælum jafnframt beint til kylfinga á höfuðborgarsvæðinu að ferðast ekki á golfvelli utan svæðisins. Undir þessa tilkynningu skrifaði Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóri GSÍ, sem er full kunnugt um óánægju kylfinga.

„Þetta voru skýr fyrirmæli frá sóttvarnaryfirvöldum að við þyrftum að loka og taka þátt í að sýna samfélagslega ábyrgð í íþróttahreyfingunni,“ segir Brynjar í samtali við RÚV í dag.

Mikil óánægja hefur ríkt meðal kylfinga sem hafa látið í sér heyra á samskiptamiðlum, þar benda margir á þá staðreynd að margar af vinsælustu gönguleiðum höfuðborgarsvæðisins séu þéttskipaðar og megi líkja þessu tvennu saman, þá hafa aðrir bent á það að verslunarmiðstöðvar og annað þar sem fólk hópast saman er enn opið.

„Vissulega væri alveg hægt að leika golf eins og við erum búin að gera með góðum árangri frá því í vor, þar fengum við undanþágu frá sóttvarnarlækni. Núna þegar við erum beðin að gera þetta af sóttvarnaryfirvöldum þá förum við í það, við treystum okkar færasta fólki.“

„Vellirnir á höfuðborgarsvæðinu eru lokaðir og ég treysti því að fólk fari eftir þessu, eins og sóttvarnarlæknir sagði þá ætti fólk að halda sig heima. Við skiljum fólk að það vilji komast í golf en þetta er staðan,“ sagði Brynjar að lokum.