Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari karla, segir að ástandið á Kára Árnasyni sé ágætt. Kári meiddist undir lok leiks við Rúmena á Laugardalsvelli í gærkvöld og var jafnvel óttast að hann væri fótbrotinn.

„Það eru ágætis fréttir af Kára. Allavega er búið að ganga úr skugga um það að Kári Árnason er ekki fótbrotinn. Smávægilegur skaði á liðböndum en eins og Kári hafði orð á sjálfur: „Ég er búinn að slíta þessi liðbönd fjórum til fimm sinnum þannig að það mun ekki stoppa mig neitt“,“ segir Freyr í samtali við Einar Örn Jónsson.

Kári verður þó að öllum líkindum ekki í leikmannahópi Íslands sem mætir Danmörku og Belgíu í næstu tveimur leikjum Þjóðadeildarinnar. „Við tökum þetta núna bara dag frá degi og næstu sólarhringar eru mikilvægir, eins og þú þekkir. Það þarf að endurheimta vel núna og fara í góðar meðferðir. Við útilokum ekki neitt en það er ólíklegt að hann spili þessa leiki,“ segir Freyr.

.