Mikil óvissa ríkir um framhald keppni í stóru boltagreinunum hérlendis. Allar deildir voru stöðvaðar í vikunni þegar íþróttir lögðust af á höfuðborgarsvæðinu. KSÍ er í mestri klemmu því lítið er eftir af mótunum þeirra megin en KKÍ og HSÍ hafa meiri tíma.
Fjórar umferðir eru eftir af Pepsi Max deild karla og tvær eftir af Pepsi Max deild kvenna. Bikarúrslitaleikir eru líka eftir. Ekkert verður spilað til að minnsta kosti 19. október en algjör óvissa er eftir það.
„Þetta setur auðvitað strik í reikninginn. Það er að líða vel á haustið og inn í veturinn og mótunum mun auðvitað seinka. En við erum að reyna að takast á við þetta, finna lausnir og stilla upp sviðsmyndum. En auðvitað er þetta ekki alfarið í okkar höndum. Við erum að fylgjast með framvindunni en vonandi getum við aftur byrjað mótið og klárað það, það er langt komið í raun og veru, fljótlega eftir 19. október. Ég held að tíðin sé nú oft á tíðum í lok október og jafnvel fram í byrjun nóvember að það er alveg hægt að spila utanhúss og vonandi getum við gert það. Þannig að við vonumst ennþá til þess að geta klárað Íslandsmótið utanhúss, utanhúss,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Hjá HSÍ og KKÍ er mikið meiri tími til stefnu. Þeirra mót eru tiltölulega nýhafin og ef í harðbakkann slær er hægt að teygja þau lengra inn í vorið til að vinna upp tíma.
„Við gerum ráð fyrir því í okkar plönum að við getum spilað út júní, ef út í það er farið. Það er svona það sem við erum að miða við í dag. Það er sveigjanleiki á mótinu hjá okkur. Við erum að spila um það bil einu sinni í viku, bæði í karla- og kvennaflokki. Þannig að við erum ekkert að brenna inni ennþá. Við höfum tíma og sveigjanleika,“ segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ.
„Við erum með reglugerð, sem sambandið setti núna í sumar fyrir þetta tímabil, þar sem við höfum tækifæri á að spila deildakeppnina út apríl og klára úrslitakeppnina fyrir lok júní í rauninni. Það er vonandi ekki svigrúm sem við þurfum að nota en við notum ef til þess kemur,“ segir Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri KKÍ.
Lið á höfuðborgarsvæðinu mega ekki æfa næstu 10 daga en lið utan höfuðborgarsvæðisins mega æfa. Það skapar ójafnvægi í undirbúningi liða sem er þyrnir í augum íþróttafólks. Þetta er hægt að yfirvinna með lengri undirbúningi en þá aftur rekst KSÍ á að tíminn er naumur.
„Það er erfitt að fyrra einhverja praktíska lausn á þessu. En nálgunin yrði þá bara sú að taka tillit til þess hvenær við byrjum aftur. Þannig að það gefist þá ákveðinn tími fyrir félögin hér á höfuðborgarsvæðinu að hefja aftur æfingar áður en til keppni kemur. En það verður að viðurkennast að þetta er ekki ákjósanlegasta staðan,“ segir Guðni.