Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að von sé á lokunarstyrkjum á allra næstu dögum til að koma til móts við þau fyrirtæki sem þurfa að skella í lás vegna hertra sóttvarnaráðstafana. Hún segir að styrkirnir verði hærri en þeir voru í vor, enda hafi þeir verið gagnrýndir fyrir að vera veigalitlir.

Upphæð styrks til hvers atvinnurekanda er miðuð við fjölda starfsfólks. Hvert fyrirtæki getur fengið allt að 600 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann vegna lokunar í einn mánuð. Hámarksupphæð til hvers fyrirtækis verður 120 milljónir króna, en í vor var hún aðeins 2,4 milljónir. Í vor voru lokunarstyrkir gagnrýndir fyrir að koma að litlu gagni fyrir stærri fyrirtæki og forsætisráðherra segir að nú verði bætt úr því. Lagt er til að úrræðið hafi gildistíma fram á mitt næsta ár og verði tekið til endurskoðunar á fyrsta ársfjórðungi.

„Þetta eru aðgerðir til að koma til móts við líkamsræktarstöðvar, bari og krár og aðra þá sem gert hefur verið að loka, sömuleiðis hárgreiðslustofur. Og það sem aðgerðirnar í vor voru gagnrýndar fyrir var að þær miðuðu við of fáa starfsmenn, þannig að við munum hækka þessi viðmið verulega,“ segir Katrín í samtali við fréttastofu.  

Aðspurð hvort verði ráðist í einhverjar aðgerðir fyrir heimilin segir Katrín að stjórnvöld nálgist aðgerðirnar út frá vandanum: „Sem er atvinnuleysi og nauðsyn þess að verja störf og verja afkomu. Þannig að á næstunni eru auðvitað fyrirhugaðar aðgerðir til að koma til móts við þá sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi, eins og kynnt var í tengslum við  kjarasamninga og þar var auðvitað nefnd ferðaþjónustan sem er mest áberandi í hópi þeirra aðila. Og hugsunin er sú að þar séum við að koma til móts við aðila svo þeir geti tryggt að einhverju leyti afkomu sinna starfsmanna. Sömuleiðis mun það sama eiga við um þá sem hafa verið að vinna innan hinna skapandi greina, og þá sérstaklega sviðslista og tónlistar. Og svo auðvitað þeirra sem eru einyrkjar, sem hafa gagnrýnt það að þessar aðgerðir hafi ekki náð til þeirra nægilega vel,“ segir hún.