Læknir Bandaríkjaforseta telur öruggt fyrir hann að sinna opinberum störfum á ný. Aðeins rétt rúm vika er síðan forsetinn greindist með COVID-19.
Það eru ekki nýmæli að Bandaríkjaforseti sé iðinn á samfélagsmiðlum en myndbönd sem hann hefur birt á Twitter síðustu daga hafa vakið undrun margra. Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, segir forsetann ekki í tengslum við raunveruleikann. Í dag lögðu Demókratar fram frumvarp sem heimilar þinginu að grípa inn í telji það forsetann ekki hæfan til embættis heilsu sinnar vegna. Pelocy tók fram að frumvarpið tengdist ekki endilega Donald Trump, heldur væri mikilvægt að hafa lagaramma til að grípa til í framtíðinni.
Trump segir að fólki batni
Vika er síðan forsetinn tilkynnti að hann hefði greinst með COVID-19. Síðan þá hefur hann sagt að fólk þurfi ekki að óttast sjúkdóminn. Í viðtali á sjónvarpsstöðinni FOX sagði Trump að það sem gerist eftir að fólk smitist sé að því batni. Sú er reyndar ekki raunin fyrir þau rúmlega 212 þúsund sem hafa dáið úr COVID-19 í Bandaríkjunum.
Í öðru viðtali á sömu sjónvarpsstöð í gær var forsetinn spurður hvort hann hefði farið í sýnatöku aftur frá því að hann greindist. „Við prófum mig sennilega á morgun. Það er óþarfi að vera að prófa í sífellu,“ sagði forsetinn. „En þeir hafa fundið mjög lítið af veirunni, ef eitthvað. Ég er ekki viss um að það hafi fundist nein sýking. Ég fór ekki svo nákvæmlega út í það með læknunum. En það eru frábærir læknar á Walter Reed-sjúkrahúsinu,“ bætti hann við.
Stefnir á að hefja kosningabaráttu á ný á morgun
Forsetinn stefnir á fara aftur af stað með kosningabaráttu sína á morgun. Það væri ekki í samræmi við tilmæli Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna. Samkvæmt þeim á einangrun að vara í tíu til tuttugu daga. Fleiri en þrjátíu tengd Hvíta húsinu hafa nú greinst smituð. Leiðtogi Republikana virðist líta svo á að Hvíta húsið sé ekki öruggur staður í faraldrinum, enda gildi þar önnur viðmið en í þinginu þar sem fólk notast við grímur og virðir nálægðarmörk.