Með því að leyfa bardagaklúbbum og öðru snertisporti að halda áfram en loka líkamsræktarstöðvum er verið að senda almenningi þau skilaboð að þær séu stórhættulegir staðir. Þetta sagði Björn Leifsson eigandi líkamsræktarstöðvarinnar World Class í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. 

Björn hefur verið gagnrýninn á hversu langt sóttvarnarráðstafanir ganga og telur að hægt hefði verið að leyfa líkamsræktarstöðvum að hafa opið áfram.  Hann segir að frá því að faraldurinn skall á hafi þrjár og hálf milljón heimsótt stöðvarnar en engin smit hafi verið hægt að rekja þangað.  

Hann fullyrðir að mikið sé lagt upp úr smitvörnum á stöðvunum og margt  hægt að gera þar til að sporna við smiti. Gestir séu iðnir við að spritta og þrífa eftir sig og duglegir að passa sig og aðra. 

Björn kveðst hafa boðið sóttvarnarlækni að líta á aðstöðuna svo hægt væri að veita undanþágu en hann hafi ekki séð ástæðu til heimsóknar. Þó hafi fjöldi fyrirtækja starfað á undanþágum frá því að reglur voru hertar en líkamsræktarstöðvar séu settar undir sama hatt og barir.  

Aðspurður segir Björn varla taka því að hafa stöðvarnar opnar fyrir tuttugu manns en að hann reki þær margar og skipta megi þeim niður í fjölda hólfa. Því sé tveggja metra reglan auðveld í útfærslu. Ekkert mál, segir hann að sé að rekja tilfelli sem tengist líkamsræktarstöðvum en enginn hafi svo hann viti smitað aðra þar innan dyra.  

Björn er þungorður þegar kemur að stöðu starfsfólks líkamsræktarstöðva og hefur á orði að það fólk sem stjórni heilbrigðiskerfinu þurfi ekki að óttast afkomu sína.

Um 350 séu í störfum hjá honum, þar af helmingur verktakar af ýmsu tagi. Það fólk sé búið að missa atvinnuna og sé launalaust. Auk þess hafi hann þurft að segja upp 52 starfsmönnum í vikunni. Þannig hafi ákvarðanir heilbrigðisyfirvalda áhrif á fjölda fjölskyldna í landinu.

Þau sem enn séu í vinnu mæti til að hanga ekki í þunglyndi heima, spili á spil og dundi sér við eitt og annað.  Þegar eitthvað komi upp á sé starfsfólkið tilbúið að bregðast við.  

Þótt Björn segist hafa meiri áhyggjur af starfsfólkinu en rekstrinum, sem hann segir standa vel, telur hann áhrif hertra aðgerða gríðarleg á reksturinn. Hann reki 17 stöðvar, þurfi að greiða leigu og laun en þiggi hvorki lokunarstyrki né hlutabótaleiðir.

Hann kveðst finna til með þeim fyrirtækjaeigendum sem hafa þurft að hafa lokað lengi. Mikilvægast sé þó að reyna að lifa við ástandið og vernda viðkvæmasta fólkið.  

Björn Leifsson segist ekki vita hvenær hann geti opnað stöðvar sínar aftur, en þá verði starfsfólkið endurráðið. Hann álítur, miðað við reynslu frá fyrri bylgju faraldursins, að lokanir muni vara hið minnsta þrjár vikur þótt í reglum og tilskipunum sé miðað við tvær.