Níu af hverjum tíu sjómönnum hafa fundið fyrir sjóveiki og sjóriðu. Þá segist tæpur helmingur þeirra glíma við mígreni eða spennuhöfuðverk. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar Háskólans á Akureyri. Sjómaður til þrjátíu ára segir vandamálið falið.

Niðurstöðurnar komu á óvart

Rúmlega 260 sjómenn tóku þátt í rannsókninni sem framkvæmd var um mitt síðasta ár. Helstu niðurstöður eru þær að 88% sjómanna hafa upplifað sjókveiki. 43% þjást af mígreni eða spennuhöfuðverk þá hafa um 86% sjómanna hafa upplifað sjóriðu. Nanna Ýr Arnardóttir, lektor við HA vann rannsóknina í samvinnu við Hannes Petersen, háls-, nef- og eyrnalækni. Hún segir niðurstöðurnar hafa komið þeim á óvart.

„Það eru háar tölur, kannski af því að sjómenn eru að átta sig á því sjóveiki er ekki bara að kasta upp heldur eru það líka að finna fyrir svona sjóveikieinkennum eins og vanlíðan og höfuðverk, svima og svoleiðis á sjó," segir Nanna. 

Heldur þú að það sé eitthvað í menningu sjómanna sem valdi því að þetta er kannski svolítið falið?

„Já ég held það, sjómennskan er kannski þannig að þetta eru yfirleitt karlmenn sem að eru að harka af sér og eru kannski ekkert að viðurkenna einhverja veikleika. En svona með árunum eins og þjóðfélagið er í dag þá erum við aðeins farin að viðurkenna að við erum ekki hörkutól alla daga."

Hefur glímt við sjóriðu í 30 ár

Sigþór Hilmar Guðnason, skiptstjóri á fraktskipi sem fréttastofa ræddi við tekur undir með Nönnu Ýri. 

ekkert eðlilegt að vera eins og riðuveik rollaÉg hef nú alltaf sagt það að ég hafi aldrei verið sjóveikur. Ég er búinn að vera í þrjátíu ár en ég er svona farin að hugsa það uppá nýtt. Kannski er ég bara búinn að vera oft sjóveikur án þess að vera kannski mikið að pæla í því,"segir Sigþór. 

„Hvert einasta skipti sem ég fer í frí og upp á bryggju þá riðar allt undan mér. Það hefur bara fylgt mér alla tíð en ég hef aldrei talað um það fyrr en núna fyrir framan alþjóð. Það er ekkert eðlilegt að vera eins og riðuveik rolla upp á bryggju þegar maður kemur í land en þannig er það með mig."