Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja fyrir Alþingi frumvarp um sanngirnisbætur til barna með fötlun sem dvöldust á litlum vistheimilum á vegum hins opinbera síðustu áratugi og urðu fyrir misrétti.

Upphaflega stóð til að afgreiða frumvarpið í vor en það frestaðist vegna faraldursins. Forsætisráðherra sagði málið þá snúast um að bæta fólki misrétti og ranglæti sem það varð fyrir af hálfu hins opinbera. 

Katrín Jakobsdóttir segir að ekki hafi verið ráðist í sérstaka rannsókn á starfsemi heimilanna sem bæturnar ná til, heldur stuðst við fyrri rannsóknir á vistheimilum. Í tengslum við þær fengu um 1.200 manns greiddar sanngirnisbætur.  

„Og í stað þess  þá að setja af stað nýjar nefndir til að fara yfir þetta þá var ákvörðun mín að fyrri rannsóknir gæfu okkur nægar vísbendingar um hvernig hið almenna ástand hefði verið.“ 

Er vitað til hversu margra barna þetta nær og hvað þetta eru miklar fjárhæðir?

„Þetta eru þá einstaklingar sem eru orðnir fullorðnir núna en voru sem börn á slíkum heimilum. Þetta er metið á um það bil á fimmta hundra milljón króna og nær þá til hátt í hundrað einstaklinga.“ segir Katrín.