Sjaldséður flækingur skyldur storkum og hegrum lenti um borð í togaranum Bylgjunni VE úti fyrir Austurlandi. Skipverjum tókst að halda lífi í fuglinum þar til komið var í land á Djúpavogi og fékk hann athvarf í Húsdýragarðinum.
Þegar við litum um borð í Bylgjuna í fyrradag stóð eltingarleikur við suðrænan, háfættan vaðfugl. Þetta er bognefur að spóka sig um í vistarverum sjómanna. Heimkynni hans eru víða, svo sem í Ástralíu, Afríku, Suður-Evrópu og í Karíbahafseyjum. Hann birtist á dekkinu 2. október með sínar glansfjaðrir þegar skipið var að veiðum austarlega á Breiðdalsgrunni.
Veiddu hann í net á dekkinu
„Við náðum að kasta neti yfir hann og við reyndum að koma honum vel fyrir í bananakassa. Og þar bara ól hann manninn í túrnum. Svo þegar við vorum búnir að ná honum þá fórum við að finna út úr þessu; hvaða kvikindi þetta væri. Hann er svona að jafna sig á þessu ferðalagi okkar,“ segir Anton Traustason, vélstjóri á Bylgju VE.
Fékkst til að éta lifur
Skipverjar reyndu fyrst suðrænt mataræði, appelsínur og banana. Hann leit ekki við slíku, enda er bognefur vanari að éta drekaflugur, engisprettur, eðlur, snáka og fisk. „Ég tók átu innan úr fiski og gaf honum lifur. Hann var hrifnastur af lifrinni til að byrja með. Ég setti þetta í sturtubotninn og setti smá vatn í og leyfði því að fljóta þannig að þetta ruggaði. Það væri búið að skipta á honum og uppstoppuðum ref ef hann hefði drepist hérna hjá okkur. En þá gerði ég allt sem ég í lífinu mínu gat til þess að reyna að halda honum gangandi og það gekk. Hann komst lífs af. Hann verður ekki stofustáss hjá neinum í bili allavega. Hann er búinn að fá vetursetu í Húsdýragarðinum. Við vonum að það hafi einhverjir gaman af að sjá hann. Þetta er fallegur fugl,“ segir Anton.
Fuglinn hefur ekki verið kyngreindur og skipverjar gátu honum nöfnin Bylgja eða Georg (Goggi). Hann er nú kominn í Húsdýragarðinn í Reykjavík og mögulega verður hann kominn í sýningarbúr þegar garðurinn opnar næst.
Uppfært 07.10.2020 09:56
Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að bognefur hefði aðeins tvisvar sést á Íslandi frá árinu 1842. Samkvæmt upplýsingum frá Flækingsfuglanefnd er þetta tíundi bognefurinn sem finnst hér við land frá árinu 1824, þar á meðal er einn sem sást í Sandgerði í vor.