„Það var mikið komið til okkar á eftir og spjallað við okkur og svona, fólk tók eftir þessu. Stoppaði mann úti á götu. Þetta var eitthvað sem vakti eftirtekt hjá fólki. Sem betur fer ekki algengt að systkini séu í hjólastólum,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson. 

Saga bræðranna Bergs Þorra og Jóns Gunnars Benjamínssona, frá Ytri-Tjörnum í Eyjafjarðarsveit, vakti mikla athygli þegar hún var sögð í Landanum fyrir áratug. Bræðurnir slösuðust báðir í slysum og eru lamaðir fyrir neðan mitti. Í tilefni tíu ára afmælis Landans rifjuðum við upp frásögnina með þeim bræðrum en margt hefur breyst í þeirra lífi síðastliðinn áratug. 

„Svona kannski mesta breytingin síðan þetta viðtal var tekið að ég á litla tveggja ára stelpu í dag, Kamilla Björg heitir hún, það er svona sólargeislinn í lífinu,“ segir Jón Gunnar. Síðan að viðtalið var tekið er Bergur líka fluttur á höfuðborgarsvæðið en hann bjó fyrir norðan. 

„Ég náttúrulega flutti suður og bý með minni konu þar. Ég held að ég sé á ágætis stað í lífinu. Ég var að ferma börnin mín,“ segir Bergur. 

Jón Gunnar hefur undanfarin ár rekið ferðaskrifstofu og Bergur einbeitt sér að réttindamálum fatlaðs fólks. „Ég er svona maðurinn sem lem alltaf í borðið, og er kannski svona frekar leiðinlegur en það verður einhver að vera það. Það verður einhver að passa upp á þessi réttindi,“ segir Bergur.