Lögreglan hefur á undanförnum mánuðum látið fjarlægja sjö aðganga á samfélagsmiðlum þar sem börn og ungmenni hafa deilt myndböndum af sér slást. Lögreglan óttast að aukið ofbeldi geti leitt til þess að börn skaðist varanlega.
Undanfarin ár hefur ítrekað verið fjallað um aukna ofbeldishegðun íslenskra barna og ungmenna. Þau egna hvort annað til slagsmála, taka þau upp og deila á samfélagsmiðlum. Mikinn fjölda síðna þar sem myndböndum er deilt er að finna á Instagram, en þeim er einnig deilt á Snapchat, Facebook og öðrum samfélagsmiðlum.
Lögreglan hefur undanfarna mánuði unnið markvisst í því að reyna að ná utan um þessa þróun og stöðva hana. „Nú erum við farin að tækla þetta meira kerfisbundið en við gerðum. Við fórum að skoða síðurnar sérstaklega. Ég sat yfir tveimur síðum og skoðaði hundrað myndbönd af slagsmálum. Það er svona það næsta sem ég hef komist því að vilja hætta í vinnunni eftir þá viku þar sem ég var búinn að vera að skoða og greina þessi myndbönd,“ segir Marta Kristín Hreiðarsdóttir, verkefnastjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Marta segir að lögreglan hafi látið fjarlægja þá sjö aðganga sem voru með flest myndböndin. Þá reyni lögreglan að vekja athygli foreldra á þessari þróun.
„Við sjáum að það er ákveðin aukning og að það eru fleiri ungir gerendur í líkamsárásarmálum hjá okkur. Við erum að fá fleiri upplýsingar um þessar síður, hópa og myndbönd. Þau fara ekki öll inn á síður heldur er þeim oft dreift á milli krakkanna án þess að þau séu sett upp á einhvern einn stað. Við vildum aðeins sporna við. Við höfum áhyggjur af því að þetta sé að verða algengara og að verða að meiri menningu,“ segir Marta.
Í nýrri könnun embættis landlæknis kemur fram að íslensk börn og ungmenni sláist mun meira núna en fyrir sex árum. Til að mynda höfðu 17% stúlkna í 10. bekk tekið að minnsta kosti þrisvar sinnum þátt í slagsmálum á síðustu 12 mánuðum, samanborið við 3% árið 2016. Níu prósentustiga aukning var hjá strákum í 10. bekk. Marta segir ekki ljóst af hverju aukningin er svona mikil.
„Við sjáum að það að taka upp myndböndin og dreifa þeim hefur áhrif. Krökkunum finnst það vera töff. Það er ákveðin frægð. Sum þessara slagsmála eru eingöngu til þess að taka þau upp og setja á síður eða dreifa þeim. Aðrir krakkar eru að skapa sér ákveðið nafn og verða pínu alræmd fyrir þetta. Það skapar þeim ákveðna virðingu eða ótta þannig að þau komast upp með að gera ýmislegt gagnvart öðrum krökkum á sama aldri,“ segir hún.
„Svo er þetta líka bara tilfallandi. Sum slagsmálanna sem við erum að sjá eru sett upp sem nokkurs konar íþróttakeppnir. Það er nánast að fólk takist í hendur og byrji svo að slást. Það teljum við hugsanlega vera áhrif frá bardagaíþróttum,“ segir hún.
Lögreglan óttast að ofbeldið geti leitt til þess að barn skaðist varanlega ef ekki tekst að stöðva þessa þróun. „Við höfum í gegnum tíðina komið að málum þar sem svona slagsmál hafa endað illa. Bæði með því að viðkomandi er örkumlaður eða stríðir við meiðsl og aðra líkamlega fötlun það sem eftir er. Þetta er ekki bara slæmt fyrir þann sem verður fyrir ofbeldinu heldur eru líka dæmi um að fólk sem slasar einhvern situr uppi með það á samviskunni alla ævi og á erfitt með að lifa með því. Þannig við erum að reyna að höfða til allra,“ segir Marta.
„Þetta er hættulegt. Við höfum séð það í manndrápsmálum að eitt högg hefur nægt. Það þarf bara að lenda á vitlausum stað og þá geta afleiðingarnar verið mjög alvarlegar,“ segir hún.