„Ég held frá því ég las fyrstu Tinnabókina mína þegar ég var nýorðin læs hafi ég sótt sérstaklega í spennusögur,“ segir Katrín Júlíusdóttir fyrrverandi þingmaður og ráðherra sem vann spennusagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir bók sína Sykur á dögunum.
Katrín segist í samtali við Síðdegisútvarpið að það sé óhjákvæmilegt fyrir þá sem hafa lesið ógrynnin öll af glæpasögum og horft á mikið af spennuþáttum að leita dýpra. „Ég datt á löngu tímabili á Youtube og hér og þar ofan í viðtöl við glæpamennina sjálfa, því mig langaði að skilja hvað fær fólk til að gera svona.“ Upp úr því hafi svo komið til hennar persónur sem hún vildi setja niður á blað. „Ég var alltaf að segja manninum mínum frá þessu sem er rithöfundur [Bjarni Bjarnason] og hann hvatti mig áfram. Fyrst komu persónurnar, einn óþokkinn og svo aðal-lögreglukonan. Svo fann ég sögusviðið eftir á.“ Í bókinni finnst látinn maður og ljóst er að fólskuverk hefur átt sér stað, en maðurinn er virtur og dáður embættismaður en svo kemur ýmislegt í ljós um hann eftir því sem líður á söguna. „Hún er ekkert mjög blóðug heldur meiri ráðgátustemming.“
Þrátt fyrir þessa velgengni á ritsviðinu þvertekur Katrín fyrir að kalla sig rithöfund. „Ég held maður verði ekki rithöfundur eftir eina bók. Ég er allavega ekki komin þangað, bókin kom bara út í gær. En kannski mun ég einhvern tímann setja „rithöfundur“ í símaskrána.“ Hún segir það ekki eiga vel við sig að sitja löngum stundum við tölvuskjá en það hafi hjálpað til að hún hafi verið búin að hugsa söguna vel áður en hún byrjaði, þannig skriftarnir sjálfar hafi gengið nokkuð fljótt fyrir sig. „Ég er búin að sjá fyrir mér bókina eins og senur.“ Þegar hún settist svo niður til að skrifa var hún með tónlist í botni. „Eina gamla plötu með Garðari Cortes, aðeins á Rammstein og smá Insomnia, gamalt frumteknó. Þetta kemur mér í gírinn.“ Katrín lofar ekki að hún geri skriftirnar að aðal- eða ævistarfi en hún starfar nú sem formaður Samtaka fjármálafyrirtækja. En hún er þó strax komin með hugmynd að næstu bók. „Mig langar að halda áfram með Sigurdísi lögreglukonu.“
Guðmundur Pálsson og Hrafnhildur Halldórsdóttur ræddu við Katrínu Júlíusdóttur í Síðdegisútvarpinu.