Bjarni Guðjónsson, fyrrum landsliðsmaður og sérfræðingur RÚV um fótbolta, reiknar með að byrjunarlið Íslands í umspilsleiknum gegn Rúmeníu verði kunnuglegt. Hann reiknar með mjög jöfnum leik.

Ísland mætir Rúmeníu á fimmtudag í undanúrslitum umspilsins um sæti á EM næsta sumar. Rúmenar hafa verið á uppleið undanfarið ár á meðan íslenska liðið hefur heldur sigið niður styrkleikalista.

Bjarni segist hafa viljað sjá meiri endurnýjun á sterkustu uppstillingu íslenska liðsins en raun hefur orðið en skortur á henni helgast af því að fastamenn liðsins hafa spilað vel með landsliðinu.

„Ég hefði kosið að við hefðum náð að endurnýja eitthvað í hópnum okkar undanfarin tvö ár. Það hefur því miður ekki verið unnið þannig og kannski af góðu því að þessir strákar sem hafa verið að spila hafa verið að standa sig rosalega vel, sbr. eins og Kára,“ segir Bjarni aðspurður um líklegt byrjunarlið Íslands gegn Rúmeníu.

 

„Það sem mér finnst líklegt núna er að liðið verði okkur góðkunnugt. Að það verði þarna margir leikmenn sem hafa spilað stærstan hluta af þessum mikilvægu leikjum sem við höfum spilað undanfarin fjögur ár.“

Jóhann Berg Guðmundsson er aftur kominn í íslenska hópinn eftir meiðsli. Hann hefur verið mikið meiddur undanfarna 18 mánuði og lítið spilað af þeim sökum.

 

„Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að hann hafi spilað lítið. Ef reynslan hefur kennt okkur eitthvað um þessa stráka, og það á við um Gylfa Þór, Jóhann, Aron Einar, Birki, þá skiptir engu máli þótt þeir séu ekki að spila. Þeir koma í landsliðið, þeir þekkja sín hlutverk rosalega vel þannig að spiltími hefur ekki sett strik í reikninginn. Meiðsli hins vegar eru eitthvað sem ég á erfitt með að tjá mig um því ég þekki ekki stöðuna en ég hef engar áhyggjur af spiltíma.“

Knappur tími til undirbúnings

Leikmenn íslenska liðsins fóru að tínast til landsins í gær og var fámennt á fyrstu æfingu og fundum. Liðið kemur því ekki allt saman fyrr en síðdegis í dag og því ansi knappur tími til stefnu.

 

„Þá held ég að reynslan í hópnum nýtist. Þetta er svona gamaldags, landsliðið eins og það var í gamla daga. Þá fengum við tvo til þrjá daga í undirbúning fyrir hvern leik. Í þessum knappa tíma sem við höfum til undirbúnings núna kemur reynslan til skjalanna, hversu vel menn þekkja hvor annan.“

Aðspurður um styrkleika rúmenska liðsins segir Bjarni að þeir séu áþekkir okkar liði. Liðin eru á svipuðum stað á styrkleikalista FIFA. Rúmenarnir eru nú á þeim stað sem íslenska liðið var fyrir fjórum árum eða svo. 

 

„Það eru komnir þarna inn ungir og sprækir strákar sem hafa staðið sig vel með 21 árs landsliðinu. Árgangurinn þar á undan í 21 árs liðinu er líka þarna inni þannig að þeir hafa endurnýjað lið sitt töluvert. Síðast þegar við spiluðum við þá [1996 og 1997 í undankeppni HM 1998] voru þeir með stjörnu á heimsmælikvarða, sem er ekki í dag, en sonur hans verður væntanlega í liðinu, ekki alveg jafngóður og pabbi sinn en alveg þokkalega sprækur,“ segir Bjarni og vísar þar til Gheorghe Hagi og sonar hans Ianis.

 

Þar sem aðeins er einn leikur í umspilinu gildir engin útivallaregla þegar kemur að mörkum ef jafnt verður. Það verður spilað til þrautar á Laugardalsvelli og gæti jafnvel farið í vítakeppni.

 

„Ég ætla nú að vona að það fari ekki svo langt. En það kæmi mér ekki á óvart ef þetta yrði mjög jafnt.“

Leikur Íslands og Rúmeníu er á fimmtudag klukkan 18:45. Honum er lýst beint á Rás 2 og sýndur beint á Stöð 2 Sport.