Joe Biden mælist með átta prósentustiga forskot á Bandaríkjaforseta í skoðanakönnunum nú þegar mánuður er til kosninga. Þótt Trump hefði betur í öllum sveifluríkjunum dygði það honum ekki til að halda embætti.

Donald Trump sneri aftur í Hvíta húsið eftir að hafa verið útskrifaður af Walter Reed-hersjúkrahúsinu í gærkvöld. Hann greindist með COVID-19 í síðustu viku en segist sjaldan hafa verið betri. Í dag þurftu nokkrir háttsettir starfsmenn varnarmálaráðuneytisins að fara í sóttkví eftir að smit kom upp í ráðuneytinu.

Samkvæmt skoðanakönnunum hafði Biden sex prósentustiga forskot í maí. Fylgi hans jókst í sumar og varð munurinn mest 9,6 prósentustig. Trump sótti á í síðasta mánuði en nokkur breyting hefur orðið síðustu daga, Biden í hag, og er munurinn nú átta prósentustig.

Á sama tíma fyrir fjórum árum hafði Hillary Clinton tæplega fimm prósentustiga forskot á Donald Trump.

Biden mælist með stuðning 289 kjörmanna og Trump 163, en til að ná kjöri þarf að njóta stuðnings 270 þeirra. Sveifluríki eru óvenjumörg en þó Trump hafi betur í þeim öllum, og þeim sem talin eru líkleg til að falla til hans, dugir það honum ekki til að halda embætti.

Margt getur breyst á næstu vikum. Varaforsetaefnin Mike Pence og Kamala Harris mætast í sjónvarpskappræðum á morgun. Þá eiga Biden og Trump að mætast í annað sinn, 15. október í Flórída, og síðan í þriðja og síðasta skipti 22. október í Nashville.