Þessum viðburði er lokið og því hefur streymið verið fjarlægt.

Hert samkomubann tók gildi á miðnætti um leið og neyðarstig almannavarna var virkjað. Mest tuttugu mega nú koma saman, með nokkrum undantekningum þó, grímuskylda aukin og ákveðin starfsemi skellir í lás. 59 smit greindust innanlands í gær, öll nema þrjú á höfuðborgarsvæðinu. 15 liggja á sjúkrahúsi, þrír alvarlega veikir á gjörgæslu. Sóttvarnarlæknir segir veiruna mun dreifðari heldur en í vetur. 

Fjórtán heimilslausir menn, sem nýttu sér gistiskýlið á Granda í Reykjavík, hafa verið skipaðir í sóttkví eftir starfsmaður greindist með smit. Níu hafa skilað sér í sóttvarnarhúsið við Rauðarárstíg en ekki er vitað hvar hinir fimm eru. 

Mjög skiptar skoðanir eru um það uppátæki Bandaríkjaforseta að bregða sér í bíltúr í gærkvöld, sýktur af kórónuveirunni. Keppinautur hans í kosningunum hefur aukið fylgi sitt samkvæmt nýrri könnun.

Forsætisráðherra segir ríkisstjórnina algjörlega samstíga um aðgerðirnar sem tengjast baráttunni við veiruna og hún hvetur fólk til að gera allt til að stuðla að samstöðu.

Fjórum mönnum var bjargað úr sjávarháska við Papey í gærkvöld eftir að yfirbyggður línubátur sigldi á sker og brotnaði að framan. Áhöfnin komst í björgunarbát en mildi þykir að báturinn hafi ekki sokkið.

Alþjóða Rauði krossinn fordæmir árásir á íbúðahverfi í bardögum Armena og Asera. Tugir almennra borgara hafa fallið.

September var í svalari kantinum og hiti undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu öllu. Úrkoma var í meira lagi og fyrsti snjór vetrarins féll víða norðanlands.