Búið er að ráða niðurlögum eldsins sem kviknaði í kornþurrkara á bóndabænum Laxárholti á Mýrum í Borgarbyggð. Slökkviliðið í Borgarbyggð fékk tilkynningu klukkan tíu fyrir hádegi um að eldurinn hafði kviknað. Kallað var í liðsauka og tóku tæplega þrjátíu slökkviliðsmenn frá Borgarbyggð og Akranesi þátt í slökkvistarfinu.

Heiðar Örn Jónsson, varaslökkviliðsstjóri, segir að slökkvistarf hafi gengið vel. Einkum hafi samstarf á milli slökkviliða Akraness og Borgarbyggðar verið gott. „Það var lykillinn í þessu."

Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð, sagði handavinnu fólgna í því að kljást við eldinn í korninu inni í vélinni.

„Við leggjum froðu ofan á þetta og svo er framhaldið að það er opnun að neðan og við skolum þessu bara út og drepum í því."

Plötur voru rifnar af þaki kornhlöðunnar þar sem eldurinn logaði til þess að auðvelda aðkomu. Þegar fréttastofu bar að garði um hádegi hafði þegar verið ná tökum á eldinum og unnið að því að hindra útbreiðslu hans. Slökkvistarfi var aflokið klukkan fjögur. Engin hætta steðjaði að fólki eða kvikfénaði. 

Tinna Rut Jónsdóttir, bústjóri í Laxárholti, segir tjónið þó nokkuð. 

„Þetta er ekki bara kornþurrkari heldur er þetta líka það að nú fáum við ekki fóðrið fyrir skepnurnar, eða beljurnar, eins og við þurfum. Þannig að þetta er miklu meira heldur en bara að kornþurrkarinn sem er farinn heldur líka ónýtt korn. Svo að veturinn er hálf niðri fyrir okkur vegna þessa."