Einungis ellefu af þeim fjörutíu og sjö sem greindust innanlands í gær voru í sóttkví. Hertar sóttvarnaaðgerðir taka gildi á miðnætti. Yfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra segir líklegt að þá verði neyðarstig almannavarna virkjað.
47 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Einungis ellefu þeirra voru í sóttkví. 634 eru í einangrun með sjúkdóminn, og hefur fækkað frá því í gær, sem þýðir að þónokkrum sem smituðust í síðasta mánuði er nú batnað. Þrettán eru á sjúkrahúsi, þrír þeirra á gjörgæsludeild. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir áhyggjuefni hversu margir sem greindust í gær voru ekki í sóttkví.
„Að vera bara með 23% í sóttkví er með því lægsta sem við höfum séð í mjög langan tíma og örugglega bara í heildina einn af dögunum sem er með lægsta hlutfallið. Þetta ýtir bara undir það að við vorum komin á þann punkt að ekki var annað í stöðunni en að grípa til aðgerða,“ segir Víðir.
Líklegt að viðbúnaðarstig verði hækkað
Hertar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu faraldursins taka gildi á miðnætti. Mest tuttugu manns mega þá koma saman, með ákveðnum undantekningum. Krám, skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum verður lokað. Ekki verða breytingar á starfsemi leik- og grunnskóla. Grímuskylda verður þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð. Víðir á von á því að neyðarstig almannavarna taki einnig gildi á miðnætti.
„Við erum að fara yfir það núna í dag og mér finnst mjög líklegt að viðbúnaðarstig almannavarna verði hækkað í neyðarstig frá og með sama tíma og reglurnar taka gildi.“
Fólk finnur fyrir meiri smitskömm en áður
Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að smitrakning sé erfiðari en áður, sumpart vegna verri samvinnu við þá sem greinast með veiruna.
„Fólk er ekki að gefa beint villandi upplýsingar heldur er það að gefa eins litlar upplýsingar og það mögulega getur. Þetta gæti verið einn hlutinn af því hversu margir eru utan sóttkvíar, að við fáum bara ekki þessar upplýsingar frá fólki í þessari bylgju. Það getur auðvitað verið það að einhver smitskömm sé í gangi, sem er engin ástæða til, og síðan hitt að fólki finnist óþægilegt að einhverjir fari í sóttkví þeirra vegna. Sem er líka algjör óþarfi. Það er veiran sem er óvinurinn í þessu,“ segir Víðir.
Viljum ekki lenda í svörtustu spánni
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ljóst hvað það þýði að svo lítill hluti hafi verið í sóttkví við greiningu síðasta sólarhringinn.
„Það er komin töluverð samfélagsleg dreifing og það er það sem við höfum haft áhyggjur af,“ segir Þórólfur.
Í minnisblaði hans til heilbrigðisráðherra kemur fram að útlit sé fyrir að þessi bylgja faraldursins standi út október og um þúsund manns muni sýkjast. Ef miðað sé við afleiðingar sjúkdómsins í vetur þá megi búast við að um 60 til 70 verði lagðir á spítala, 17 á gjörgæsludeild, 10 fari í öndunarvél og að sex látist.
„Spáin gengur út á það ef við hefðum ekki gripið til þessara aðgerða. Þetta er svona svartasta spá sem er þarna lögð til grundvallar. Þess vegna viljum við fara í þessar aðgerðir til þess að ná kúrfunni eins mikið niður og mögulegt er svo við lendum ekki í svörtustu spánni,“ segir Þórólfur.
Hann segir erfitt að bera saman faraldurinn nú og hvernig hann var síðasta vetur.
„Það er alltaf varhugavert að bera tölur saman. Við erum að skima miklu meira, taka fleiri sýni og þess vegna erum við að finna fleiri sem eru einkennalitlir og einkennalausir. Ég held þetta séu samt nauðsynleg viðmið sem við þurfum að hafa í okkar spá,“ segir Þórólfur Guðnason.