Á árunum í kringum 1949 komu nokkrir hópar þýsks verkafólks til landsins, mestmegnis konur. Nína Rós Ísberg mannfræðingur skrifaði doktorsritgerð sína við Lundúnaháskóla um þetta efni.

Eftir kreppuna 1930 og fram undir seinni heimsstyrjöld, þegar Bretarnir og Bretavinnan kom til, flutti fólk, ekki síst ungar konur, úr sveitinni á mölina. Þá voru góð ráð dýr því það flækti lífið fyrir karlana í sveitinni sem fannst þeir ekki geta gengið í kvennastörfin. „Það varð því svokallaður kvennaskortur í sveitum þar sem þær voru hvorki til staðar til að giftast körlunum né vinna,“ segir Nína Rós í viðtali í Samfélaginu á Rás 1. Verkaskiptingin var mikil og mörkin skýr á þessum tíma. „Konur unnu ákveðin verk og karlar önnur og það þurfti því konur til að vinna hin og þessi verk í sveitum.“ 

„Þær sem voru snoppufríðar, þær voru valdar“

Eftir heimsstyrjöldina síðari berast fregnir til Íslands af því að í Lübeck í Þýskalandi  sé stór hópur flóttafólks sem þangað hafi komið frá austurhéruðum Þýskalands. Og þá kviknaði á perunni hjá bændum. „Hugmyndin er sú hjá íslensku Bændasamtökunum að þarna hljóti að vera fólk sem sé til í að koma til Íslands og vinna þessi störf.“ Tveir menn frá Bændasamtökunum ferðbúast og halda til Þýskalands þar sem þeir auglýsa í blöðum og umsóknum rignir inn. Þeir velja svo úr umsækjendum sem voru mjög margir og á meðal þeirra var stór hópur karla. En þeir vildu helst ráða konur og ekki spillti fyrir ef þeim leist vel á þær. „Þeir vildu konurnar fyrst og fremst en eiga í erfiðleikum með að fylla þann kvóta.“ Að lokum halda þeir til Íslands aftur með 300 manns í svokölluðum Búnaðarfélagshópi. „Hugmyndin var að Þjóðverjarnir sem kæmu væru duglegir og vinnusamir og líkir okkur og ættu því auðvelt með að aðlagast.“

Ákjósanlegast þótti að fólkið líktist Íslendingum sem mest og væri á sömu bylgjulengd. Þau áttu einnig að vera vön landbúnaðarstörfum. „En það var ekkert hugsað um það þegar viðtölin voru tekin,“ segir Nína. „Ein sagði: „Þetta fór bara eftir því hvort stelpan var sæt eða ekki. Þær sem voru snoppufríðar, þær voru valdar.“ Og kannski er eitthvað til í því.“

Máttu ekki tala móðurmálið við börnin

Konurnar fengu það orð á sig að þær væru vera hreinlátar og myndarlegar þegar þær tóku til hendinni á bæjum sem áður hefðu síst talist snyrtilegir. En lifnaðarhættir voru víða mjög frumstæðir í sveitunum. „Það var til í dæminu að það væru engin klósett og þá þurfti að nota flórinn. Það þurfti að sækja vatn út í á og þvo þvottinn þar líka.“ En á skömmum tíma urðu miklar breytingar og þessar konur lifðu til að sjá þær. Konurnar þýsku lögðu líka margt til og kenndu íslensku sveitafólki til dæmis að rækta grænmeti. Margar bjuggu þær þó við frelsisskerðingu og mikið aðhald. „Það var gífurleg stjórnun hjá tengdafjölskyldu og nágrönnum á því sem þær máttu gera og væri samþykkt.“ Til dæmis þótti mörgum ekki við hæfi að þær töluðu móðurmálið við börnin sín. „Það var reyndar mismunandi en miðað við það sem ég fékk frá mínum viðmælendum tala þær yfirleitt ekki þýsku við börnin. Það voru þó undantekningar á.“

Feðurnir máttu ekki halda að móðir og börn ættu leyndarmál á þýsku

Ein konan var til dæmis áminnt af mágkonu sinni þegar hún kom heim úr ferðalagi með barnið til Þýskalands og barnið var orðið altalandi á þýsku. „Þá var hún skömmuð fyrir að tala ekki íslensku við barnið sitt í Þýskalandi,“ segir Nína. Nágrannar skiptu sér líka gjarnan af þegar þeir heyrðu mæðurnar tala móðurmálið við börnin og þá var það oft vegna þess að bóndanum væri svo mikil vorkunn. „Einn nágranninn benti á að faðir barnanna myndi ekki skilja þau og það gengi ekki. Og einhver faðirinn var afbrýðisamur yfir að börn og móðir væru að tala saman eitthvað sem gæti verið leyndarmál.“

„Auðvitað var þetta kannski ást“

En hvers vegna ákváðu þær margar að vera um kyrrt? „Auðvitað var þetta kannski ást,“ segir Nína. „Fólk fann einhvern sem það vildi giftast.“ Og oft voru viðbrögð samfélagsins við þeim ráðahag jákvæð, „ekki síst: mikið er nú gott að þessi maður hafi fundið sér svona góða konu,“ segir Nína. En fordómar komu oft frá tengdafjölskyldunni sem óttuðust að konurnar væru bara að reyna að seilast í eigur mannnanna, „varðandi það að þessi kona hafi komið og tekið þennan mann og þar með jörðina líka. Þær fá sumar hverjar alveg að heyra það.“

Þurfum að koma til móts við innflytjendur í fjölmenningarsamfélagi

Nína segir að sannarlega hafi margt hafi breyst til hins betra í viðhorfi til innflytjenda og til dæmis þykir blessunarlega sjálfsagt að börn séu tvítyngd, „að þau læri það mál sem móðirin talar eða föðurins ef hann er erlendur,“ segir hún. En á Íslandi búa núna innflytjendur sem ekki hafa ættartengsl á Íslandi eða eru ekki giftir Íslendingum og það kallar á ákveðna hugarfarsbreytingu. „Við höfum verið í því að laga fólk að okkur en nú þurfum við að laga okkur að þeim veruleika sem blasir við. Það er fjölmenningarsamfélag,“ segir Nína. „Það er fullt af fólki sem við þurfum að hleypa inn í okkar samfélag án þess að þau aðlagist. Við þurfum að koma til móts við þau.“

Heimildarmynd um sex þýsku kvennanna var sýnd á RÚV á miðvikudaginn. Hér er hægt að horfa á myndina í spilara RÚV.

Halla Harðardóttir ræddi við Nínu Rós Ísberg í Samfélaginu á Rás 1.