„Við sáum svartan reyk stíga upp frá þessu húsnæði þegar við vorum á leiðinni hingað. Þetta leit ekki vel út í byrjun,“ segir Kristján Sigfússon, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu um eld sem kom upp á verkstæði á Skemmuvegi í Kópavogi í dag. Nokkrir starfsmenn hafi verið á staðnum þegar eldurinn kom upp en þeir hafi ekki ráðið við hann.
„Þegar við komum á vettvang þá var hér bara talsverður eldur út úr þessu þili hér þannig að við hófum í rauninni slökkvistarf strax, sendum allar stöðvar af stað og náðum fljótt að slá á þetta reyndar.“
Kristján segir að eldurinn hafi verið talsverður, sérstaklega á neðri hæð hússins. „Var aðeins að byrja uppi en við náðum að slá fljótt og vel á það.“
Aðspurður hvort það liggi fyrir hvernig eldurinn kviknaði segir Kristján að menn hafi verið við vinnu á verkstæðinu og þeir hafi tilkynnt um eldinn. „En þeir komu sér út þegar þeir sáu að þeir réðu ekki við málið og hringdu í slökkviliðið.“
Kristján segir að sprengihætta sé alltaf í starfsemi verkstæða. „Það er verið að nota gas og það eru gaskútar séu hérna inni. Trúlega voru einhverjir af þeim farnir þegar við komum en það eru enn þá heilir kútar þarna inni og gott að það komst ekki eldur í þá.“
Kristján telur að húsið sé mjög illa farið að neðanverðu en efri hæðin virðist hafa sloppið að mestu leyti. Eldurinn hafi ekki verið búinn að ná sér á strik.
Kristján segir að slökkvistarfið hafi gengið mjög vel. Fjórar stöðvar hafi farið á staðinn og nú sé unnið að því að fækka í hópnum. „Við reiknum með að vera með eina til tvær stöðvar kannski í svona klukkutíma í viðbót til að fylgjast með og slökkva í einhverjum glæðum sem gætu kviknað.“