Einn komst út af sjálfsdáðum þegar bílaverkstæði gjöreyðilagðist í eldsvoða í Kópavogi í dag. Eldtungur stóðu út um glugga þegar slökkvilið bar að garði en vel gekk að ráða niðurlögum eldsins.

„Þetta leit nú ekki vel út í byrjun. Þegar við komum á vettvang var talsverður eldur. Við fengum allar stöðvar á staðinn og náðum fljótt að slá á þetta,“ segir Kristján Sigfússon, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hann segir að talsverð hætta hafi skapast vegna gaskúta sem sprungu með látum og að verkstæðið sé gjöreyðilagt.

Einn starfsmaður var inni þegar eldurinn kviknaði og komst hann út af sjálfsdáðum og sakaði ekki. Hann hljóp yfir á næsta verkstæði, sem er í sömu byggingu, og bað eigandann að hringja í slökkviliðið.

„Hann var angistarfullur þegar hann kemur hlaupandi hingað og var mikið niðri fyrir. Þá var kominn talsvert mikill reykur út og ég hringi strax á slökkviliðið og meðan við vorum að bíða eftir þeim byrjar eldurinn að magnast mikið upp,“ segir Nicolai Þorsteinsson, eigandi þess verkstæðis.

„Manni stóð ekki alveg á sama. Það voru gaskútar þarna inni og bílar bæði á lyftum og á gólfi þarna inni hjá honum. Bensíntankar sem springa þegar kviknar í. Þannig það gat í raun og veru allt gerst,“ segir Nicolai.