Slökkviliðsmenn lenda í ýmsu í starfi sínu en Ásgeir Valur Flosason og Sigurjón Hendriksson tóku í fyrsta sinn á móti barni eftir 12 ár í starfi.
„Oft hittum við fólk á versta degi lífs þess, og stundum á síðasta degi lífsins, svo þetta var ómetanleg upplifun,“ segir Ásgeir Valur Flosason, bráðatæknir, slökkviliðsmaður og kafari hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sem tók í fyrsta sinn á móti barni um liðna helgi eftir 12 ára starf hjá Slökkviliðinu.
„Við förum oft í fæðingarflutninga og þá hefur maður tíma til að undirbúa sig en ekki í þetta sinn,“ segir Ásgeir. Eins og fram hefur komið í fréttum fæddist barn í bílasal Slökkviliðsins við Skógarhlíð um helgina. Foreldrarnir voru á leið á fæðingardeildina en sáu ekki fram á að ná í tæka tíð svo ljósmóðir ráðlagði þeim að fara á slökkvistöðina. „Móðirin var komin á sjúkrabörunar og ég ætlaði að fá einhverjar upplýsingar en þá segir hún að höfuðið sé komið. Þannig að við sviptum niður buxunum hennar og viti menn það kemur höfuð!“
„Það var stórkostlegt að upplifa þetta,“ segir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu, sem einnig var viðstaddur fæðinguna. Sigurjón hefur tekið á móti nokkrum börnum á ferlinum, þar á meðal í bíl á planinu fyrir utan stöðina í niðamyrkri og rigningu.
Rætt var við þá Ásgeir Val og Sigurjón um fæðingar í Samfélaginu á Rás 1 og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.