Fundur þríeykisins með ríkisstjórninni hófst í ráðherrabústaðnum nú klukkan 16. Búist er við að hertar aðgerðir innanlands séu til umræðu. Það hefur þó ekki fengist staðfest.

Fundurinn hófst klukkan 16 í ráðherrabústaðnum og voru Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra boðuð þangað til fundar við ríkisstjórnina alla, nema Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem er fjarverandi. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði fyrr í dag að hann væri að íhuga að leggja til hertar aðgerðir innanlands. Það myndi þýða 20 manna samkomutakmarkanir, tveggja metra reglu og ýmsar lokanir. Hann var spurður að því hvort von væri á hertum aðgerðum í dag.

„Það er erfitt að segja nákvæmlega. Það er verið að vinna í þessu máli. Það gæti allt eins orðið, eða um helgina. Við vitum að það sem við gerum í dag það mun skila árangri eftir um það bil tvær vikur. Þannig að ef við ætlum að gera eitthvað þá er eins gott að grípa til þeirra sem fyrst. Það eru íþyngjandi aðgerðir sem yrðu í þá átt sem við vorum að grípa til seinasta vetur, en það þarf að ákveða þetta tiltölulega fljótt.“ 

Erum við þá að tala um samkomutakmarkanir upp á 20 manns, tveggja metra reglu?

„Það er akkúrat á þeim nótum sem við gripum til aðgerða seinasta vetur með ágætis árangri. Ég held að ef við þurfum þá nýtum við okkur þá reynslu sem við fengum þá, ég held að það sé einsýnt.“

En erum við að stefna aftur á neyðarstig?

„Ég held að það sé þannig að ef við förum að grípa til harðra aðgerða sé það einsýnt að við þurfum að fara á neyðarstig,“ sagði Þórólfur í viðtali fyrr í dag.

37 greindust innanlands í gær. Þar af voru 26 ekki í sóttkví, eða sjötíu prósent. Nú eru 605 í einangrun með sjúkdóminn og þrettán á sjúkrahúsi. Af þeim eru þrír á gjörgæsludeild, tveir þeirra eru í öndunarvél.

Frekari fregnir verða fluttar af fundinum þegar þær berast.