Sóttvarnalæknir er með minnisblað til heilbrigðisráðherra í smíðum, þar sem lagðar eru til aðgerðir vegna útbreiðslu þriðju bylgju faraldursins. Hann vill ekki gefa upp hvenær minnisblaðinu verður komið til ráðherra.

37 greindust innanlands í gær. Þar af voru 26 ekki í sóttkví, eða 70%. Nú eru 605 í einangrun með sjúkdóminn og þrettán á sjúkrahúsi. Af þeim eru þrír á gjörgæsludeild, tveir þeirra eru í öndunarvél.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir þróun faraldursins þannig að líklega þurfi að grípa til harðra aðgerða. Þær aðgerðir þurfi þá að koma til framkvæmda sem fyrst. Þórólfur sagði fyrr í dag að hann íhugaði að leggja til hertar aðgerðir innanlands; 20 manna samkomutakmarkanir, tveggja metra reglu og ýmsar lokanir.

Ríkisstjórnin fundaði í dag með sóttvarnayfirvöldum um stöðu faraldursins. Ekkert var ákveðið á þeim fundi.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fyrirkomulag á landamærum verði óbreytt næstu tvo mánuði eða til 1. desember, þannig að allir komufarþegar eru skimaðir tvisvar fyrir veirunni og fara í fimm daga sóttkví á milli.