Kópavogsbær í samvinnu við stærstu íþróttafélögin sín hefur hrundið af stað nýju verkefni. Eldri borgarar verða nú sérstaklega velkomnir í skipulagt íþróttastarf.
Breiðablik, HK og Gerpla standa að eldri borgarastarfinu í samvinnu við Kópavogsbæ og kynntu það á fjölmennum fundi í dag. Verkefnið gengur undir nafninu Virkni og vellíðan.
Til stendur til að nota íþróttamannvirki bæjarins fyrir eldri borgara á þeim tímum sem þau hefðu annars ekki verið í notkun.
„Eins og við þekkjum orðið með barnastarf þá á að byrja að bjóða upp á skipulagða hreyfingu fyrir eldri borgara innan íþróttafélaganna, nýta aðstöðuna sem og menntaða fagfólkið sem starfar innan íþróttafélaganna,“ segir Eva Katrín Friðgeirsdóttir, verkefnastjóri Virkni og vellíðunar.
„Fyrst og fremst verður þetta sem fræðin segja okkur að sé svo mikilvægt; styrktarþjálfun, liðleika-, jafnvægis- og samhæfingaræfingar fyrir eldri borgara. Við ætlum aðeins að leika okkur að við séum innan íþróttafélaga og í haust ætlum við að bjóða upp á göngufótbolta í Breiðabliki, jóga í Gerplu og svo dans í HK. Nýta okkur það sem nú þegar er í boði innan íþróttafélaganna og aðlaga það að þessum nýja hópi.“