Ívar Ásgrímsson þjálfari Breiðabliks telur liðið vera í góðri stöðu að vinna áfrýjunarmál vegna ólöglegs leikmanns í fyrstu umferð úrvalsdeildar kvenna. Breiðablik vann Val en var dæmdur ósigur og þar að auki sektað vegna leikmannsins.
Leikmaðurinn sem um ræðir er Fanney Lind Thomas sem dæmd var í leikbann í lokaleik síðasta tímabils áður en mótið var blásið af sökum kórónuveirufaraldursins. Ívar segir að lögfræðingar félagsins vinni hörðum höndum að því að fá 250 þúsund króna sekt og tapi snúið við. Breiðablik tapaði í kvöld 74-71 gegn Fjölni og er því með tvo tapleiki á bakinu eftir að hafa verið dæmt ósigur eftir unninn leik gegn Val í fyrstu umferð.
„Ég hef nú alveg trú á því að við vinnum þetta í áfrýjun, ég tel okkur vera með gott mál í höndum. Ég sagði við stelpurnar að við ráðum þessu ekkert og að við höfðum spilað vel í þessum leik,“ sagði Ívar í samtali við RÚV eftir tapleikinn í kvöld.
„Ég tel að við séum ennþá með einn sigur þó við séum með skráð 0-20 tap inn á KKÍ. Ég held að flestir sem skoði þetta mál og rýni í sjái sömu niðurstöðu og ég svo ég er bara mjög bjartsýnn fyrir því.“
Nánar er rætt við Ívar í spilaranum hér fyrir ofan.