Eftir fjármálakreppuna 2008, þegar ríkisstjórnir víða um heim tóku á sig skuldir til að bjarga fjármálakerfum landa sinna, var víða tekið á auknum ríkisskuldum með miklum niðurskurði. En það er röng nálgun að líta á opinberar skuldir líkt og skuldir fyrirtækja eða heimila, segja hagfræðingar eins og Stephanie Kelton. Ef ríki skuldar hefur einhver fengið fé og þá skiptir öllu að féð sé vel nýtt, ekki hvort skuldirnar vaxi.

Eftir 2008: of mikil áhersla á niðurskurð, of lítið af Keynes

Nokkrum árum eftir fjármálakreppuna var tíðindamaður Spegilsins á umræðufundi um kreppuna og kreppuumfjöllun. Einn fjölmiðlamaður sagðist telja að bæði hann og fleiri hefðu í umfjöllun sinni einblínt um of á að eina leiðin til að taka á kreppuskuldum hins opinbera væri snarlegur niðurskurður.

Sú leið hefði aðeins dýpkað kreppuna. Stefna breska hagfræðingsins John Maynard Keynes hefði átt betur við. Keynes dró þann lærdóm af kreppunni upp úr 1930 að þegar einkageirinn væri úr leik ætti ríkið að auka umsvif sín.

Veiruaðstæðurnar eru aðrar en eftir kreppuna 2008

Nú ríkja mjög sérstakar aðstæður. Eftirspurn eftir vöru og þjónustu hefur verið kýld niður af ríkisstjórnum, sem vilja draga úr samneyti fólks til að hemja veirufaraldurinn. Til að bæta tekjutapið hefur ríkið víða greitt laun fólks, sem getur ekki unnið vegna veiruaðgerða.

Þannig hafa ríki á engum tíma orðið stórskuldug. Og þá heyrist gjarnan hvernig eigi að taka á skuldunum.

,,Harðræði“ – hættuleg hugmynd

Eftir fjármálakreppuna 2008 skrifaði hagfræðingurinn Mark Blyth prófessor við Brown University bók um niðurskurðinn sem var beitt eftir kreppuna. Breska orðið ,,austerity,“ eða ,,harðræði,“ er notað um þessar aðgerðir, sem miða að minni ríkisumsvifum og þá með niðurskurði, lægri ríkisútgjöldum, að greiða opinberar skuldir og hindra frekari skuldasöfnun. Bók Blyth frá 2013 fjallaði um þessa, að hans mati, hættulegu hugmynd, ,,Austerity, the History of a Dangerous Idea.“

Frá harðræði yfir í hagfræði reiðinnar

Nú hefur Blyth skrifað aðra bók, ásamt Eric Lonergan, ,,Angrynomics,“ nýyrði um hagfræði reiðinnar. Hvernig reiði mótar afstöðu fólks, til dæmis til Brexit í Bretlandi og Donald Trumps í Bandaríkjunum. Reiði sem er að hluta sprottin af niðurskurðinum í kjölfar fjármálakreppunnar 2008.

Blyth hefur nýlega bent á að veirufaraldurinn gefi okkur ærna ástæðu til að huga rækilega að hvernig við tökum á hlutunum.

Núna er tíminn til að hugsa hlutina upp á nýtt

Það sem er líka athyglisvert núna er að já, það hefur orðið gríðarlegur samdráttur en aðeins af því fyrirtæki urðu að draga saman seglin vegna veirufaraldursins og lokana sem ríki fyrirskipa. Vandinn er afar áhugaverður, segir Blyth. Eignir hafa ekki eyðilagst, þetta er allt þarna eins og við skyldum við það. Nú er að átta sig á hvað getur haldið áfram að virka og hvað ekki og þá hvenær.

Ein leið til athugunar: goðsögnin um fjárlagahallann

Til að hugsa hlutina upp á nýtt er tilvalið að grípa bókina ,,The Deficit Myth,“ eða goðsögnina um fjárlagahallann, eftir Stephanie Kelton, annan bandarískan háskólaprófessor. Kelton vinnur út frá svokallaðri ,,modern monetary theory,“ sem leitast við að lýsa hvernig hagkerfið virkar.

Kenning Keltons er ekki aðeins að ríkið eigi að auka umsvif í samdrætti, heldur að fjárlagahalli, það er að ríkið eyði meiru en það aflar og þá meðfylgjandi skuldir, skipti ekki öllu máli. Ef ríkið eyðir hundrað kalli en aflar aðeins nítíu króna þá hefur einhver fengið tíkallinn. Þá skiptir öllu að þessi einhver noti peningana vel. Skattalækkun fyrir hátekjufólk eða stórfyrirtæki gagnast ekki samfélaginu ef peningurinn er ekki notaður. Ef tíkallinn fer í að byggja vegi eða skóla þá er það samfélagsvæn fjárfesting.

Ríkisbúskapur allt annars eðlis en fyrirtækjarekstur eða heimilishald

Að mati Keltons er ein meinvillan sú að ríkisbúskapur sé sambærilegur fyrirtækja- eða heimilisrekstri. Talsmenn ríkisútgjalda í jafnvægi hamra gjarnan á að skuldum hér og nú sé velt á framtíðina. Það stenst ekki, af ýmsum ástæðum. Framtíðin nýtur fjárfestinganna og eins, ríkisbúskapur lýtur ekki lögmálum fyrirtækjareksturs eða heimilishalds. Alls ekki, segir Kelton.

Ekki hugsa um ríkið, sem gefur út gjaldmiðil, eins og það sé heimili, einkafyrirtæki eða sveitafélag. Allt aðilar sem nota gjaldmiðil. Ríki getur hagað útgjöldum sínum öðruvísi en við öll hin af því ríki þarf ekki að finna sér fé til að geta notað fé, sagði Kelton í viðtali.

Verðbólgan er viðmiðið, ekki fjárlagahallinn

Þó ekki þar með sagt að ríki þurfi ekkert að íhuga útgjöldin. Vissulega, skuldirnar skipta vissulega ekki öllu en kjarni málsins er að hafa augun á verðbólgu, að mati Keltons.

Rétt þegar Kelton var að ganga frá bókinni, blossaði Covid-19 upp og breytti heiminum. Og þar með varð enn brýnna að kynna sér hugmyndir Keltons.