Páll Stefánsson var aðstoðarflugmaður í Fokker Friendship flugvél Flugfélags Íslands sem fórst í Færeyjum 26. september 1970. Átta manns létust í slysinu, þeirra á meðal flugstjóri vélarinnar.
Vélin hafði vegna veðurs þurft að bíða í tvo sólarhringa en lagði loks af stað frá Björgvin í Noregi. Eftir um tveggja tíma flug, þegar hún hugðist búa sig til lendingar, var þoka var yfir eynni Mykinesi í Færeyjum og skyggni mjög slæmt. Flugstjórinn hafði reynt að lenda í um hálftíma þegar vélin hrapaði í hlíðar fjallsins Knúks á Mykinesi og fórst. Flugstjórinn, Bjarni Jensson, og sjö færeyskir farþegar létust en 26 björguðust, sumir illa slasaðir. Á meðal þeirra var Páll Stefánsson sem var aðstoðarflugmaður í vélinni. Fimmtíu ár eru liðin frá slysinu og Páll rifjaði það upp í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hann segir að það hafi verið ótrúleg mildi að hann skyldi bjargast, „þó ég hafi slasast mikið og verið næstum dáinn. Ég skarst svo mikið í andliti og á höfði að það var lítið eftir skilst mér,“ segir hann. Og þegar hann rankaði við sér eftir slysið og skildi hve lánsamur hann hafði verið fann hann fyrir miklu þakklæti. „Það er sterkasta hamingjutilfinning sem ég hef fundið fyrir.“
Á þessum tíma var engin áfallahjálp í boði og Páll vann úr áfallinu sjálfur. „Ég ræddi aldrei við neinn sálfræðing eða prest eða lækni um andlega þáttinn,“ segir hann og þakkar fyrir að hafa geta talað um slysið við vini sína, fjölskyldu og ekki síst samstarfsfólk. „Það skipti miklu máli, ekki síst þegar við vorum að velta fyrir okkur hvernig í ósköpunum þetta hefði getað skeð. Þannig komst ég yfir þennan andlega þátt í sambandi við þennan atburð.“
Sjálfur man hann ekki eftir brotlendingunni. Hann man eingöngu eftir því að hafa gengið um borð í flugvélina í Björgvin. Þegar rannsóknarnefnd danskra yfirvalda kom til Íslands til að rannsaka málið bauðst Páll til að láta dáleiða sig til að rifja upp það sem gerðist um borð og slysinu sjálfu en nefndin taldi að þess þyrfti ekki. „Þeir sögðu eftir að ræða við lækna að það væri fullkomlega eðlilegt að minnið vantaði þarna út af þessu höfuðhöggi,“ segir Páll sem hefur því aldrei munað eftir því sem gerðist.
Það voru 34 í vélinni, 30 farþegar og fjögurra manna áhöfn sem samanstóð af Bjarna heitnum, Páli og flugfreyjunum Hrafnhildi Ólafsdóttur og Valgerði Jónsdóttur. Þegar flugstöðin missti samband við vélina og ljóst var hvað gerst hafði var upprunalega talið að hún hefði mögulega lent í sjónum. Það varð eftirlifendum til happs að þrír farþeganna höfðu sloppið svo vel að þeir voru færir um gang. Þeir gengu niður í þorpið og létu vita hvað gerst hafði, og hvar vélin væri. Danska herskipið Hvítabjörninn var nýkomið frá Grænlandi til Þórshafnar og gat flutt hin slösuðu þangað en veðrið var vont og björgunaraðgerðir erfiðar. „Það var svo hvasst að það var ekki hægt að lenda við bryggjuna á Mykinesi heldur varð að klifra kletta á norðausturhluta eyjunnar. Þar var aðeins lygnara og fólk var dregið upp með köðlum,“ segir Páll.
En hvernig var að stíga aftur upp í flugvél eftir slysið og fara að fljúga á ný? „Það gekk býsna vel,“ segir Páll. Í næstu flugferð hans var hann farþegi með tveimur flugmönnum á leið til Hornafjarðar. Hann viðurkennir að hann fann fyrir töluverðri spennu þegar hann fór um borð. Og lendingin gekk brösuglega. „Það var mikil þoka í Hornafirði og það lá við að við yrðum að hætta við lendingu en það tókst samt,“ segir Páll sem þó segist ekki hafa orðið hræddur. „Hvorki í þetta skipti né önnur. Það hefur verið mér mikil gæfa því ég var mjög hræddur um að geta ekki flogið meir.“ Og þá gæfu segist hann geta þakkað samstarfsmönnum sínu að miklu leyti. „Þeir stóðu við bakið á mér alla tíð,“ segir Páll sem flaug oft til Færeyja eftir slysið og þegar hann var sjálfur orðinn flugstjóri hikaði hann ekki við að setjast við stýrið á Fokker. Í lokin vill hann nefnilega koma mikilvægum skilaboðum á framfæri til þeirra sem óttast að fljúga. „Það er þannig með flugslys, sem því miður verða enn nú á dögum, að mikill meirihluti lifir af og labbar eftir það,“ segir hann.
Færeyska sjónvarpið gerði þátt um slysið í tilefni af því að hálf öld er liðin frá því. Þar var meðal annars viðtal við Pál sem tekið var í sumar. Þátturinn verður sýndur í Færeyjum í október. Stikla úr þættinum var sýnd í færeyska sjónvarpinu 26. september og hana má sjá hér.
Rætt var við Pál Stefánsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.