Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að tilgangurinn með fundi forystumanna stjórnarflokkanna með Samtökum atvinnulífsins í morgun hafi verið að fara yfir stöðuna og vinna úr samtölum sem hafi farið fram síðasta sólarhringinn. „Við erum að velta hugmyndum á milli,“ segir hún aðspurð hvort að ríkisstjórnin hafi lagt fram tillögur í viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins.
Forysta SA ákvað að fresta upphafi atkvæðagreiðslu um uppsögn kjarasamninga eftir fundinn með forystufólki ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í morgun. Nota á daginn í fundahöld og fara yfir stöðuna.
Katrín segir að það eigi eftir að skýrast hvort stjórnarliðar hitti SA aftur í dag. Hún hefur líka verið í samskiptum við viðsemjendur SA. „Ég er búin að heyra í ASÍ í dag og heyri vafalaust aftur í þeim á eftir.“