Garðar Örn Hinriksson fyrrverandi knattspyrnudómari segir það algengt að menn reyni ýmislegt á vellinum til að veiða mótherja sína í vitleysu. Hann segir þrátt fyrir það að rauða spjaldið á Beiti Ólafsson, markvörð KR, hafi verið réttur dómur.

 

Mikið hefur verið rætt síðasta sólarhring um atvik í lok leiks KR og Fylkis í Pepsi Max deild karla í gær. Þar fékk Beitir Ólafsson markvörður KR rautt spjald og Fylkir víti. Við leituðum álits hjá Garðari Erni Hinrikssyni sem dæmdi fótbolta á árunum 1989 til 2016.

„Þetta var alveg klár vítaspyrna og alveg klárt rautt, það ber að hrósa aðstoðardómara fyrir að sjá þetta og dómara fyrir að taka ákvörðunina. Þetta er á síðustu mínútu leiksins og það er ekkert allir sem hefðu þorað að taka þessa ákvörðun,“ sagði Garðar í samtali við RÚV í dag um atvikið umdeilda en Beitir Ólafsson fékk að líta rauða spjaldið á lokamínútum leiks KR og Fylkis í efstu deild karla í gær eftir að hafa farið með höndina í andlit Ólafs Inga Skúlasonar.

Mikið var rætt um þetta tiltekna atvik í gær og margir sem vildu meina að Ólafur Ingi Skúlason væri að gera of mikið úr þessu atviki þegar Beitir setur höndina í andlit hans.
„Leikmenn eru þekktir fyrir að bæta aðeins í, það er ekkert nýtt. Ég veit ekki hver höggþunginn var en það breytir ekki því að hann fór í andlitið á honum. Menn reyna allt í dag, það er alveg klárt, horfðu bara á Neymar.“

„Menn eru að fara of fljótt upp í efstu deild“
Garðar segir dómgæsluna hér heima hafa misst mikið síðustu 10-15 árin og að einungis séu að hans mati 2-3 dómarar sem geti dæmt í efstu deild. Aðrir eigi erfitt uppdráttar.

„Þegar Pierlugi Collina kom inn í dómgæsluna þá var öll reynsla tekin út og þetta snérist um hversu mikið þú gast hlaupið. Það var málið og er enn þann daginn í dag, ef þú getur hlaupið þá færðu að dæma en það er ekkert spáð í hvort þú kunnir að dæma eða ekki.“

„Með fullri virðingu fyrir þessum strákum sem eru að dæma í dag í efstu deild, fyrir utan þessa 2-3 sem geta dæmt, þá eru menn bara ekki nægilega góðir og eru að fara of fljótt upp í efstu deild. En KSÍ bara hefur ekkert annað.“