Áhrifa kórónuveirufaraldursins gætir víða og börnin eru þar engin undantekning. Ýmsar spurningar brenna á þeim, sem þau leituðust við að fá svör við hjá þríeykinu á sérstökum upplýsingafundi í síðustu viku.

„Við ætlum að reyna að vera svolítið snögg í dag, það er annar upplýsingafundur á eftir þessum sem fer reyndar í upptöku og verður sýndur seinna. Hann er fyrir krakkana. Gaman að því.“

Með þessum orðum hóf Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, upplýsingafund almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og embættis Landlæknis á fimmtudag. Upplýsingafundirnir eru nú orðnir 115. Þríeykið Þórólfur, Víðir og Alma, eru því orðin öllu vön - nema kannski beittum spurningum barnanna.

Það kemur í ljós á morgun því þau Birta Hall og Magnús Sigurður Jónasson, krakkafréttamenn, fóru fyrir hönd Krakkafrétta á Almannavarnarfund á fimmtudag. Börnin fá svör við stóru spurningunum á Upplýsingafundi Krakkafrétta sem verður sýndur á RÚV á morgun.