Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA sagðist vona að staða deilu á atvinnumarkaði skýrist á næstu dögum. Þetta sagði hann að loknum fundi sínum með formönnum stjórnarflokkanna í ráðherrabústanum á þriðja tímanum.

Farið hafi verið yfir stöðu mála og hugsanleg aðkoma stjórnvalda til að leysa deilur á atvinnumarkaði, án þess að upplýsa nánar um efnisatriði þess samtals. Hann vonast til að ASÍ og SA þokist nær samkomulagi.

„Ég vona það svo sannarlega þar sem það er mest um vert að við náum saman og náum einhvernveginn að mynda sameiginlegt viðbragð við þeirri stöðu sem Kórónukreppan hefur sannarlega krafist af okkur.“ segir Halldór.

Ertu bjartsýnn á að það náist fyrir kosningu sem er boðuð á morgun?

„Ég leyfi mér að vera bjartsýnn áfram en það mun væntanlega skýrast hratt hvað vindur fram á næstu klukkustundum, eða vonandi á morgun eða hinn.“

Hann segist ekki búast við því að stjórnvöld grípi inn í viðræðurnar, en að allir séu að gera hvað þeir geta til að liðka fyrir gangi viðræðnanna.

„Ég meðtek það sem kom fram á þessum fundi, og er almennt frekar vongóður um að það sé hægt að semja um hlutina og ná skynsamlegri lausn fyrir alla Íslendinga.“ segir Halldór.

Hann segir að nú sé það í höndum stjórnenda fyrirtækja innan SA að kjósa um framhaldið og að tekið verði mark á þeirri niðurstöðu. Það sé eina leiðin sem sé fær í tvísýnni stöðu. Hann hvetur hvern og einn stjórnanda fyrirtækja til að meta sína hagsmuni og kjósa út frá þeim. Um framald dagsins sagði Halldór:

„Sjáum hvað setur. Byrjum á að fara heim, svo fer ég örugglega aðeins í símann.“ sagði Halldór að lokum.