Á tíu vikum hefur Guðjón Óskarsson, sjötugur Reykvíkingur, hreinsað yfir fimmtán þúsund tyggjóklessur af götum borgarinnar. Honum hefur nú verið boðið starf hjá borginni og stefnir á að hreinsa allan miðbæinn fyrir næsta sumar.

Flest höfum við gerst sek um að henda tyggjói umhugsunarlaust á jörðina. Eins og frægt er orðið fékk Guðjón nóg og ákvað að taka málin í sínar hendur.

Alltaf gaman að sjá klessurnar hverfa

Markmið Guðjóns var að hreinsa um 20 þúsund klessur af götum borgarinnar, en nú hefur hann hreinsað rúmlega 15 þúsund klessur. „Það er alltaf gaman að sjá þær hverfa. Þetta er búið að vera gríðarlega gefandi,“ segir hann.  

„Ástandið er yfirleitt verst í kringum ruslafötur. Það er alveg ótrúlegt. Það er verið að hitta ofaní, en hitta ekki,“ segir Guðjón í viðtali í Sjónvarpsfréttum.  

Markmiðið er tyggjólaus 101

Guðjón vonast til að hegðun borgarbúa sé að breytast en óttast að svo sé ekki. Hann hefur fylgst með götum sem hann hefur þegar hreinsað til þess að athuga hversu fljótt klessurnar koma aftur. „Og ég náði 191 á rétt tæpum mánuði. Þannig að þetta er ekki alveg að breytast,“ segir hann. 

Guðjón hefur verið með kústinn á lofti í 10 vikur í dag en hann er hvergi nærri hættur. Reykjavíkurborg hefur boðið honum starf sem tryggjóhreinsara. Hann verður verktaki og ræður sjálfur hvaða götur hann ræðst á. „Markmiðið er tyggjólaus 101 - 1. júlí 2021. Er það ekki gott?,“ segir hann og hlær.