Átök á vinnumarkaði eru það síðasta sem samfélag í miðjum heimsfaraldri þarf, segir forsætisráðherra. Samtök atvinnulífsins kjósa um mögulega riftun á lífskjarasamningnum eftir helgi.
Kjósa um forsendur samningsins á mánudag
Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands greinir nú á um hvort forsendur lífskjarasamningsins séu brostnar eða ekki. SA líta svo á að forsendur hafi ekki haldið í ljósi efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins. ASÍ er því ósammála. Sem kunnugt er eiga laun að hækka um næstu áramót samkvæmt samningnum.
Framkvæmdastjórn SA hefur efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu meðal aðildarfyrirtækja sinna um hvort segja beri samningnum upp og mun niðurstaða liggja fyrir á þriðjudag.
Samninganefnd ASÍ fór yfir stöðuna á fjarfundi í morgun. Einhugur var innan nefndarinnar um að ekki kæmi til greina að endurskoða þær hækkanir sem Lífskjarasamningurinn kveður á um. Formaður sambandsins segir að rifti SA samningnum, boði það mikinn ófrið á vinnumarkaði. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur áhyggjur af stöðunni.
„Það er auðvitað verulegt áhyggjuefni að aðilar vinnumarkaðarins hafi ekki náð saman í umræðum sínum um forsendur kjarasamninga. Ég hef boðað það að stjórnvöld hyggjast fá að ræða við ASÍ og SA í tengslum við þessa stöðu sem upp er komin og það er alveg ljóst að við erum hér stödd í miðjum heimsfaraldri í djúpri efnahagslægð og átök á vinnumarkaði er það síðasta sem við þurfum í þessari stöðu.“
Reyna að afstýra átökum á vinnumarkaði
Stjórnvöld hafa í dag rætt við aðila vinnumarkaðarins og búist er við að það samtal haldi áfram um helgina. Þar verður farið yfir hvað megi gera til að afstýra átökum.
Forsætisráðherra leggur ekki mat forsendur lífskjarasamningsins, en ítrekar að stjórnvöld hafi staðið við sín loforð. Ótímabært sé að meta möguleg áhrif á samninga ríkisins.
„Fyrir mér horfir málið þannig við að stjórnvöld gáfu hér út yfirlýsingu í tengslum við undirritun lífskjarasamninganna og við höfum unnið samkvæmt þeirri yfirlýsingu og staðið við okkar hlut. Þau verkefni sem þar eru, þeim er ýmist lokið eða þau eru í vinnslu og við höfum átt reglubundið samráð við aðila vinnumarkaðarins um gang þeirra mála þannig ég tel að stjórnvöld hafi staðið við það sem við lofuðum, síðan er það bara aðilanna sjálfra að meta aðrar forsendur í þessum samningum og það gera þeir við samningaborðið.“
-Nú gæti allt eins stefnt í átök - þetta hlýtur að valda áhyggjum?
„Já það er ekki góð staða ef þetta bætist ofan á annað sem hér í gangi á þessu herrans ári 2020,“ segir Katrín