Marek Moszczynski er ákærður fyrir að drepa þrjá og tilraun til að drepa tíu til viðbótar með því að kveikja í húsi á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í Reykjavík í sumar. Þrettán voru inni í húsinu þegar Marek kveikti eldinn. Þrjú létust og fjögur slösuðust, sum þeirra alvarlega. EInn höfuðkúpubrotnaði og annar hlaut alvarleg brunasár á stórum hluta líkamans.

Tvær konur og einn karlmaður létust í eldsvoðanum. Hin 21 árs kona og 24 ára gamli karlmaður létust af völdum koloxíðeitrunar vegna innöndunar á reyk. Þau voru í herbergjum sínum á þriðju hæð þegar eldurinn var kveiktur. 26 ára kona lést af völdum höfuðáverka. Hún féll niður af þriðju hæð hússins þegar hún reyndi að flýja eldinn. 

Höfuðkúpubrot og alvarleg brunasár

Tíu til viðbótar voru í húsinu þegar eldurinn kviknaði og voru þau öll í lífsháska samkvæmt ákæru héraðssaksóknara á hendur Marek. Sumir komust út af sjálfsdáðum en lögregla og slökkvilið björguðu öðrum.

Einn fór út um glugga á þriðju hæð til að komast undan eldinum. Sá hlaut staðbundna heilaáverka, mörg brot á höfuðkúpu og andlitsbeinum, blóðtappa í slagæðum lungna, reykeitrun og nokkra skurði á bæði hné. Annar hlaut reykeitrun, sár á vinstri hendi og fótlegg. Þriðji hlaut reykeitrun og annars og þriðja stigs bruna á samtals sautján prósentum líkamans. Brunasárin teygðu sig yfir báða handleggi, handarbök og ofanvert á fingur, yfir hnéskeljar og nánast allt hans bak. Kona ein hlut væga reykeitrun.

Í ákærunni segir að ákærði hafi kveikt eld á gólfi í herbergi sínu á annarri hæð og á tveimur öðrum stöðum í sameiginlegu rými í húsinu. Tveir létust af völdum reykeitrunar og kona lést eftir fall af þriðju hæð hússins þegar hún reyndi að flýja eldinn. Aðrir íbúar hússins hlutu margir reykeitrun, brunasár og höfuðáverka. Þá er maðurinn ákærður fyrir að hafa slegið tvo lögreglumenn sem reyndu að handtaka hann við rússneska sendiráðið.

Maðurinn er metinn ósakhæfur samkvæmt geðmati. Verjandi mannsins fór fram á lokað þinghald vegna ósakhæfis en ekki var fallist á það að svo stöddu. Aðstandendur þeirra sem létust í brunanum, og þeir sem urðu fyrir líkams- eða eignatjóni fara fram á um 70 milljónir í skaðabætur. Verjandi mannsins hafnaði kröfunni. Eftir því sem næst verður komist hefur enginn verið ákærður fyrir að verða jafn mörgum að bana í seinni tíma réttarfarssögu á Íslandi.