Í dag, 25. september, eru liðin 20 ár síðan Vala Flosadóttir vann til bronsverðlauna í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney. Hún er eina íslenska konan sem hefur unnið verðlaun á Ólympíuleikum.
Úrslit stangarstökksins fóru fram að kvöldi 25. september árið 2000 á Ástralíuleikvanginum í Sydney að viðstöddum rúmlega 100 þúsund áhorfendum.
Mikil stemning var á vellinum þetta kvöld þar sem stærsta stjarna Ástrala í frjálsíþróttum, Cathy Freeman, hljóp til úrslita í 400 metra hlaupi. Ástralir áttu líka sinn fulltrúa í stangarstökkinu því Tatiana Grigorieva var á meðal keppenda. Þáverandi heimsmethafi, Stacy Dragila frá Bandaríkjunum, var talin sigurstranglegust.
Vala hafði staðið sig gríðarlega vel í undanrásunum og stökk 4,30 metra. Lágmarkið til að komast í úrslit voru 4,35 metrar en 12 keppendur stukku yfir 4,30 og því þurfti ekki að hækka meira. Ljóst var hverjar myndu berjast um verðlaun.
Í úrslitum náði Vala forystunni um skeið eftir að hafa stokkið yfir 4,50 metra en á endasprettinum náðu bæði Dragila og Grigorieva að komast hærra. Dragila vann með 4,60 metra sem var Ólympíumet og Grigorieva stökk 4,55.
Vala varð þarna þriðji Íslendingurinn til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum eftir silfurverðlaun Vilhjálms Einarssonar í Melbourne 1955 og brons Bjarna Friðrikssonar í Los Angeles 1984. Vala fékk riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu í janúar 2001 og var tekin inn í heiðurshöll ÍSÍ árið 2012.
Fjallað var um afrek Völu og þetta magnaða kvöld í Sydney í þáttaröðinni Íþróttaafrek Íslendinga árið 2016. Innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.