Umhverfisráðherra segist sleginn og dapur yfir því sem fram kom í umfjöllun Kveiks í kvöld um niðurrif fyrrum flaggskipa Eimskips á Indlandi. Basel samningurinn, sem sé í gildi hér á landi, eigi að tryggja að iðnríkin geti ekki kastað menguðum og hættulegum úrgangi til þróunarríkja þar sem minni kröfur eru gerðar til umhverfis- og öryggismála og mannréttindi fótum troðin.
Umhverfisstofnun vill opinbera rannsókn á meintum lögbrotum Eimskipafélagsins vegna niðurrifs tveggja gámaskipa á Indlandi. Ólöglegt er að flytja slík skip frá Evópu á þessar slóðir vegna mikillar mengunar og bágra aðstæðna verkafólks. Í umfjöllun Kveiks í kvöld kom fram að tvö fyrrum flaggskip Eimskips hafa síðustu mánuði staðið á hinni alræmdu Alang-strönd á Indlandi þar sem þau hafa verið rifin í brotajárn. Fjöldi alþjóðasamtaka og stofnana hafa fordæmt skipaniðurrif á ströndinni.
„Þarna skiptir mjög miklu máli að alþjóðasamningar, eins og Basel-samningurinn, séu virtir, sem á einmitt að tryggja að iðnríkin geti ekki kastað menguðum og hættulegum úrgangi til þróunarríkja þar sem eru minni kröfur til umhverfismála. Ég tala nú ekki um eins ömurlegar aðstæður eins og eru fyrir þetta fólk þarna eins og sást í þættunum. Þessi samingur hefur verið tekinn inn í íslenska löggjöf inn í úrgangslögin og það er á grundvelli þess sem Umhverfisstofnun hefur í rauninni þessi amboð eða þessi tól og tæki til að vísa þessu máli til héraðssaksóknara,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Evrópsk og íslensk lög banna niðurrif skipa eins og þessara, annars staðar en í vottaðri endurvinnslustöð. Engin slík er í Alang. Talsmenn Eimskips hafa sagst hafa selt skipin tvö óafvitandi um hver örlög þeirra yrðu.
„Í fyrsta lagi er maður bara sleginn yfir þessu. Það hellist yfir mann depurð og reiði yfir því að fyrirtæki í hinum vestræna heimi skuli nýta sér neyð þessa fólks sem vinnur við ömurlegar aðstæður og er í hættu á að slasast eða missa líf sitt dags daglega. Umhverfismálin eru fótum troðin og það hlýtur að vera eigenda allra þessara fyrirtækja að spyrja sig að því hvort þetta sé hreinlega siðferðislega ásættanlegt og hvort þetta samræmist umhverfisstefnu þeirra og stefnu um samfélagslega ábyrgð. Þetta er sú spurning sem ég er skilinn eftir með og eflaust líka margir aðrir,“ segir Guðmundur Ingi.