Fjárhagsstaða sveitarfélaganna hefur versnað talsvert vegna ástandsins sem nú ríkir. Tekjurnar hafa lækkað og útgjöldin hækkað. Launakostnaður er um helmingur af útgjöldum sveitarfélaga. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands Íslenskra sveitarfélaga, segir að áætlað sé að á þessu ári vanti um 33 milljarða króna í rekstur sveitarfélaganna og annað eins á næsta ári. Hún segir að víðtæk þjóðarsátt sé lífsnauðsynleg vegna þeirra aðstæðna sem nú ríkja.

Ekki formlega rætt

Laun og launatengd gjöld eru stór hluti af útgjöldum sveitarfélaganna. Aldís segir að það hafi ekki verið formlega rætt innan Sambands íslenskra sveitarfélaga að launahækkunum verði frestað.

„En auðvitað hafa sveitarstjórnarmenn og sveitarstjórar rætt þetta sín á milli. Við auðvitað fylgjumst með þeirri umræðu sem er í samfélaginu. Ég get alveg sagt fyrir mína parta sem bæjarstjóri í Hveragerði að ég sé alveg þann vanda sem við stöndum frammi fyrir og mikilvægi þess að það sé með einhverju móti gripið inni í þá stöðu.“

Hún segist ekki vita til þess að einstök sveitarfélög hafi ekki getað greitt laun. Sveitarfélögin hafi aðgang að lánsfé í gegnum lánasjóð sveitarfélaganna.

„Við getum reddað okkur þannig til skamms tíma. En það liggur alveg fyrir að það er mikil fjárvöntun innan sveitarfélaganna. Núna á þessu ári reiknast okkur til að það muni vanta 33 milljarða inn í reksturinn og annað eins á næsta ári. Þetta eru gríðarlegir peningar og þegar maður veit af því að helmingur af kostnaði sveitarfélaga eru laun og launatengd gjöld þá skipta allar breytingar sem verða gríðarlega miklu máli,“ segir Aldís.

Kallar á þjóðarsátt

Hún bendir á að sveitarfélögin séu ekki að fá þær útsvarstekjur sem gert var ráð fyrir og ekki heldur tekjur úr jöfnunarsjóði. Þegar sé búið að upplýsa að þar vanti um fjóra milljarða króna. Hún segir að það verði fylgst grant með þróuninni á vinnumarkaði.

„Sem einn stærsti launagreiðandi landsins þá skiptir það miklu máli hvernig mál þróast hjá sveitarfélögunum. Við vitum það alveg að Lífskjarasamningarnir voru mjög dýrir fyrir sveitarfélögin þar sem laun hækkuðu mest hjá þeim með lægstu launin. Ég held að það sé það sé mjög mikilvægt að við náum aftur samtali um þá gjörbreyttu stöðu sem nú er í samfélaginu. Atvinnurekendur, sveitarfélögin og launþegahreyfingin. Það er bara engin spurning að ný víðtæk þjóðarsátt, sem tekur mið af þeim aðstæðum sem við erum að upplifa núna, er lífsnauðsynleg fyrir samfélagið,“ segir Aldís.