Við völdum þennan stað af því hérna er svona gott flatlendi og svo er þetta bara góður og notalegur staður," segir Hjörtur Heiðdal Árnason. Hann og félagi hans, Arnar Freyr, eru sumsé að hefja smíði á skýli í Selskógi en það er gert úr trjágreinum og lurkum. „Fyrst ætlum við reyndar að gera svona bekk,“ segir Hjörtur og hampar stórum trjábút sem þeir Arnar Freyr fundu lengst inni í skógi.

Námskeið fyrir útipíslir og útipúka

Landinn sótti námskeið ásamt Hirti, Arnari og níu öðrum krökkum sem kallast „Útipíslir og útipúkar“ á vegum ungmennafélagsins Þrists á Fljótsdalshéraði. Leiðbeinandi er Þórdís Kristvinsdóttir: „Þetta byrjaði fyrir þremur árum en þá vorum við Hildur vinkona mín að velta fyrir okkur að krakkar væru alltof bundin við skjáinn inni í húsi og rigning og slydda væri eitthvað sem þau þekktu ekki lengur. Þá fórum við af stað með þessi námskeið sem byggja í raun bara á því að fara út að leika og ekki bara í góðu veðri heldur líka í frosti og kulda og það er bara alvega að virka. Krakkarnir elska að vera hérna í Selskógi og leika sér og skapa,“ segir Þórdís.