Sóttvarnalæknir ætlar að leggja til við heilbrigðisráðherra að barir fái að opna á ný sunnudaginn 27. september. Þeir fá þá aftur að vera opnir til klukkan ellefu á kvöldin. Þetta sagði Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

„Og ef ekkert stórt gerist næstu daga þá eru ekki lagðar til miklar breytingar að þessu sinni nema hann mun leggja til að krár og skemmtistaðir á höfuðborgarsvæðinu verði opnaðar 28. september,“ sagði Alma. „Það verða gerðar ákveðnar kröfur um hámarksfjölda gesta, ýmsan aðbúnað á þessum stöðum. Þetta á eftir að útfæra og væntanlega verður haft samráð um það.“

Ólíklegt er að grípa þurfi til róttækari aðgerða til að hamla útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Búist er við að faraldurinn gangi hægt niður og hugsanlega verður aukning tilfella. Meirihluti þeirra smita sem hafa greinst undanfarið má rekja til kráa og skemmtistaða. 304 smit hafa greinst innanlands frá 15. september.

Á upplýsingafundinum kom meðal annars fram að til greina kemur að setja hávaðatakmarkanir á skemmtistöðum vegna möguleika á úða- eða dropasmitum. Þegar fólk talar hátt eru meiri líkur á því að dropasmit berist lengra en ella. Fólki er því ráðlagt að lækka róminn.