Birkir Már Sævarsson skoraði tvö mörk þegar Valur vann mikilvægan 4-1 sigur á FH í toppbaráttu Pepsi Max deildar karla í fótbolta í dag. Birkir sem kemst ekki oft á markaskoraralistann segir aldrei hafa komið til greina að taka vítaspyrnuna sem Valur fékk í stöðunni 3-1 til að ná þrennunni.

„Ég er hrikalegasta vítaskytta sem sögur fara af. Þannig ég held að það sé alveg ágætt að einhver annar tók vítið,“ sagði Birkir Már við RÚV eftir leikinn á Kaplakrikavelli í dag og glotti. Þegar fréttamaður spurði Birki út í það af hverju hann hefði ekki verið frekur og beðið um að taka vítið gekk Eiður Smári Guðjohnsen þjálfari FH og fyrrverandi liðsfélagi Birkis úr íslenska landsliðinu akkúrat framhjá og muldraði í gríni að Birkir kynni ekkert að taka víti.

Birkir Már skoraði sitt fyrsta mark í deildinni í sumar í síðasta deildarleik á móti Stjörnunni og bætti svo tveimur við í dag. Hann hefur þó aldrei skorað tvö mörk í meistaraflokksleik á Íslandi. „Ég held ég hafi skorað síðast tvö mörk í leik á móti Rosenborg í norsku deildinni árið 2011 eða 2012,“ sagði Birkir, en hann lék um árabil með Brann í norsku úrvalsdeildinni.

Halda alltaf áfram

Sigur Vals á FH í dag kom Valsliðinu ellefu stigum fyrir ofan FH sem er í 2. sæti deildarinnar. „Ég held við höfum sýnt núna á síðustu vikum að það skipti engu máli þó við vinnum leik, við höldum alltaf áfram. Við erum búnir að vinna núna tíu leiki í röð. Það skiptir bara máli að halda áfram og vinna eins marga leiki og við getum núna í lokin,“ sagði Birkir Már Sævarsson.

Allt viðtalið við Birki Má má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

„Held við séum í stöðu sem allir vilja vera í“

Heimir Guðjónsson þjálfari Vals stýrði FH í tíu ár. Hann fór sáttur af sínum gamla heimavelli í dag. „Ég er bara ánægður með liðið. Mér fannst við koma hérna á erfiðan útivöll og spila vel og skynsamlega. Við vorum klókir og nýttum okkur veikleikana í vörn þeirra og uppskárum það sem við sáðum,“ sagði Heimir við RÚV eftir leik.

Spurður út í ellefu stiga forskotið sem Valur hefur núna á toppi deildarinnar og hvort það gæti gert menn kærulausa svaraði Heimir: „Ég held við séum í stöðu sem allir vilja vera í. Menn sjá það að þegar menn eru tilbúnir til að leggja á sig mikla vinnu að þá gerast góðir hlutir. En ég er ekkert hræddur um að við verðum eitthvað værukærir,“ sagði Heimir sem skautaði annars hjá því að svara einhverju um möguleika Vals á Íslandsmeistaratitlinum.

En hvernig var fyrir Heimi að koma aftur á sinn gamla heimavöll? „Það var bara gaman. Ég átti náttúrulega frábæra tíma hérna og kynnist mörgu góðu fólki. Það sakaði svo ekki að vinna hérna,“ sagði Heimir.

„Valur er með besta liðið í deildinni“

Logi Ólafsson þjálfari FH var eðlilega vonsvikinn með úrslit leiksins. „Já við erum fyrst og fremst vonsviknir yfir því að hafa ekki náð að spila betri leik. Síðan breyta mörk auðvitað leikjum töluvert mikið. Við teljum að við hefðum átt að fá vítaspyrnu í stöðunni 0-0. Það hefði breytt miklu ef við hefðum fengið hana. En við fengum hana því miður ekki,“ sagði Logi Ólafsson annar þjálfara FH eftir leikinn.

Spurður út í stöðuna í deildinni eftir úrslitin í dag sagði Logi: „Við horfum ekkert sérstaklega vongóðum augum á hana. Það er enginn vafi á því að Valur er með besta liðið í deildinni og þeir eru að sigla þessum Íslandsmeistaratitli heim. Ég held að það sé alveg ljóst. En við getum ekki gert neitt annað en að hugsa um okkur sjálfa og reyna að standa okkur í næstu leikjum,“ sagði Logi.

En hver eru markmið FH í næstu leikjum? „Markmiðin okkar ná ekki lengra en að vinna næsta leik. Við getum ekkert verið að setja nein önnur markmið. Það er bara þannig hjá okkur,“ sagði Logi Ólafsson þjálfari FH.