Sveitarstjórinn í Norðurþingi segir að nauðsynlegt sé að auka fjölbreytni í atvinnulífí í sveitarfélaginu til að bregðast við alvarlegu atvinnuástandi. Hrun í ferðaþjónustu og vandi stóriðjunnar eru höfuðástæður þess að um 140 manns eru nú án atvinnu í Norðurþingi.

Vinnumálastofnun spáir átta prósenta atvinnuleysi í Norðurþingi og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri, segir útlitið því ekki gott þegar líða fari á veturinn og verði mögulega verra. Þetta sé því mjög alvarleg staða. 

„Erum að berjast á mörgum vígstöðvum“

Þegar ljóst var í hvað stefndi fyrr á þessu ári var ráðist í ákveðnar aðgerðir í Norðurþingi sem fyrst og fremst miða að því að auka fjölbreytnina og skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið. „Þannig að við erum að berjast auðvitað á mörgum vígstöðvum og reyna að draga hérna inn verkefni,“ segir Kristján.

Verkefni sem skila sér á mislöngum tíma

Þar er meðal annars samstarf við Landsvirkjun um frekari uppbyggingu á Bakka, framleiðsla á vörum fyrir heilsu- og lyfjavörumarkað, frumkvöðlasetur hjá Þekkingarneti Þingeyinga og viðræður við ríki og stofnanir um fjölgun opinberra starfa. Kristján segir að sumt væri hægt að ráðast í með tiltölulega skömmum fyrirvara en annað myndi skila sér á lengri tíma.

Vonar að hægt verði að snúa þessarri þróun við

„Við þurfum að hafa eggin í mismunandi körfum,“ segir Kristján. „Og þrátt fyrir að illa ári núna í ferðaþjónustu og iðnaði þá auðvitað vonum við líka að við getum snúið þessarri þróun við og við náum fluginu vonandi ekki seinna en á næsta ári.“