Í seinni heimsstyrjöldinni dunaði dans og tónlist og tíska var framsækin hér á landi. Lítið fór samt fyrir þeim anga menningarinnar í umfjöllun um tímabilið en var raunar listilega skrásettur af Vigfúsi Sigurgeirssyni ljósmyndara. 

Ljósmyndir Vigfúsar eru nú til sýnis í Þjóðminjasafni Íslands. Höfundur sýningarinnar er Ívar Brynjólfsson ljósmyndari. „Þetta eru myndir af tónlist, tísku og dansi sem var að eiga sér stað á þeim tíma. Þetta er eitthvað sem maður hélt að væri ekki mikið til af, að þetta ætti sér stað í seinni heimsstyrjöldinni. Skemmtanalífið virðist hafa verið miklu skemmtilegra en maður kannski ætlaði,“ segir Ívar.

35 mm Leica

Á myndunum má sjá hljómsveitarstjórann Carl Billich, dansarana Ellen Kid og Sif Þórz Þórðardóttur ásamt MA-kvartettinum. „Þetta er líklega bara lítið brot af því sem átti sér stað á þessum tíma. En mikið virðist hafa verið um dans á þessum tíma,“ segir Ívar. 

Að hans sögn er tilefni sýningarinnar ærið. „Það eru 120 ár frá því að Vigfús fæddist og 100 ár frá því að hann hóf störf sem ljósmyndari, en þar á undan lærði hann ljósmyndun hjá Hallgrími Einarssyni á Akureyri. Þannig að okkur þótti við hæfi að vera með litla afmælissýningu og einblína þá á þessa ákveðnu tegund af myndum. Sér í lagi af því að árið 1935 fer hann til Þýskalands, er með sýningu í Hamborg og kemur heim með ýmislegt sem hann hefur lært og séð þar. Meðal annars kemur hann heim með 35 mm Leicu, sem er hreint ótrúlegt að nokkur hafi viljað nota á Íslandi á þeim tíma. Þá er ljósmyndaheimurinn alveg fastur í því að taka á glerplötur en þetta er allt tekið á 35 mm Leicu, sem mér finnst mjög sérstakt því að Leica kom ekki til almenns brúks fyrr en miklu seinna.“

Sýningin stendur til 12. janúar og nánari upplýsingar má finna hér