Áætlað er að ný skíðalyfta í Hlíðarfjalli verði tilbúin fyrir komandi skíðavertíð. Von er á austurrískum sérfræðingum til að gera lokaúttekt í byrjun október. Svæðisstjóri í fjallinu er bjartsýnn og á von á mikilli aðsókn í vetur.

Það hefur verið í nægu að snúast síðustu vikur í Hlíðarfjalli og allt kapp lagt á að klára nýju skíðalyftuna fyrir veturinn. Stefán Gunnarsson, svæðisstjóri í Hlíðarfjalli, segir smiði og rafvirkja vera að hnýta síðustu hnútana. Þá sé von á sérfræðingum frá Austurríki í byrjun október til að gera lokaúttektir og prófanir. 

Ýmis ljón í veginum

Upphaflega átti lyftan að vera tilbúin í desember 2018 og oft hefur verið sagt frá væntanlegri opnun í fjölmiðlum. Stefán segir framkvæmdina hafa verið umfangsmeiri en reiknað var með í upphafi og síðasti vetur hafi reynst erfiður. „Bæði var þetta snjóþyngsti vetur sem við höfum fengið hérna í fjallinu í 20 ár og svo skall á okkur heimsfaraldur svo það hafa ýmis ljón verið í veginum til þess að tefja fyrir okkur,“ segir Stefán.

Hann telur þó óhætt að lofa því nú, í síðasta skipti, að lyftan verði klár fyrir vertíðina. Hann segir lyftuna breyta ansi miklu. Bæði stækki hún svæðið og bæti aðgengið að efri hluta þess. Margir eigi erfitt með að taka T-lyftuna sem nú sé notuð. Lyftan verður sú hæsta á Íslandi en það tekur um átta mínútur að fara með henni upp á Fjallkonuhæð sem er rúmlega þúsund metra yfir sjávarmáli. 

Hagsmunasamtökin Vinir Hlíðarfjalls standa að framkvæmdinni. Upphafleg kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 363 milljónir króna. Heildarkostnaður nú liggur ekki fyrir en ljóst er að hann verður mun meiri. Akureyrarbær kaupir lyftuna við verklok á 323 milljónir en Vinir Hlíðarfjalls sjá um kostnað umfram það.

Skíðaferðir Íslendinga ef til vill til Akureyrar í ár

Akureyrarstofa ætlar að leggja sérstaka áherslu á að markaðssetja skíðasvæðið í vetur enda ekki gert ráð fyrir að Íslendingar fari mikið til útlanda á skíði. „Það er byrjað að snjóa, maður fær alltaf pínu fiðring þegar það byrjar að snjóa og við erum bara bjartsýn alltaf á þessum árstíma. Auðvitað veit maður ekkert hvernig fer með COVID og þetta allt saman en við gerum okkar besta til að taka á móti fólki í allan vetur,“ segir Stefán.