Kehdr-fjölskyldan frá Egyptalandi sem vísa átti úr landi í síðustu viku er enn ófundin. Stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur borist töluvert af ábendingum um hvar hún er niðurkomin. Þá var mikið um falskar vísbendingar, sem fólk hvar hvatt tl að senda á samfélagsmiðlum.
Vita ekki til þess að áður hafi verið lýst eftir fjölskyldu
Fjölskyldan hefur farið huldu höfði síðan vísa átti henni úr landi á miðvikudag. Stoðdeild ríkislögreglustjóra lýsti í gærkvöldi eftir fjölskyldunni og óskaði eftir upplýsingum um ferðir hennar. Nú er unnið úr þeim ábendingum sem hafa borist. Ekki hefur áður þurft að lýsa eftir fjölskyldu í þessari stöðu.
„Við erum ekki að lýsa eftir eða óska eftir upplýsingum frá almenning í mörgum málum en ég man ekki eftir því að þetta hafi gerst,“ segir Guðbrandur Guðbrandsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn Stoðdeildar Ríkislögreglustjóra.
Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun, tekur undir þetta. „Ég man ekki eftir því með fjölskyldu en man eftir því með einstaklinga, að það hafi verið lýst eftir einstaklingum, en ekki með fjölskyldu nei,“ segir Þorsteinn.
Mikil samstaða með fjölskyldunni
Brottvísuninni hefur verið mótmælt að undanförnu og samstaða með fjölskyldunni hefur verið áberandi á samfélagsmiðlum. Fólk hefur meðal annars verið hvatt til þess að villa um fyrir lögreglunni með því að senda tölvupóst á netfang stoðdeildarinnar með fölskum upplýsingum. Fjölmargir hafa orðið við beiðninni.
„Það er náttúrulega alls ekki gott,“ segir Guðbrandur, „en við erum með framkvæmdina á okkar borði og við einbeitum okkur að henni og einbeitum okkur að því að ná sambandi við fjölskylduna, það er okkar markmið.“
Póstarnir tefji störf lögreglu en sérfræðingar séu fljótir að greina falskar ábendingar frá öðrum.
„Ákveðnar vísbendingar“ um dvalarstað
Guðbrandur segir að stoðdeildinni hafi grun um hvar fjölskyldan er niðurkomin.
„Við höfum ákveðnar vísbendingar en erum bara að kanna þær þessa stundina. Er það þá vísbendingar sem ykkur bárust í dag? Meðal annars, sem tengjast öðrum upplýsingum.“
Talið er að einhver hafi hjálpað fjölskyldunni að felast en spurður hvort það hafi einhverjar afleiðingar fyrir fólk að aðstoða fjölskylduna við að dyljast segir hann að stoðdeildin sjái bara um brottvísunina sjálfa.
„Að öðru leyti ef einhver refsiverður verknaður tengist þessu máli þá er það bara í höndum þeirra embætta þar sem að brotið á sér stað eða vettvangur og hafa rannsóknardeild eða ákæruvald til þess.“
Brottvísunin stendur en ekki er vitað hvað tekur við hjá fjölskyldunni ef hún kemur í leitirnar. Mögulega verður henni fundinn nýr dvalarstaður og ekkert hefur verið ákveðið með mögulegt eftirlit.
„Þeim verður bara fenginn dvalarstaður í húsnæði sem hentar þeim og í samstarfi og samvinnu við þá aðila sem að þessu máli koma og eftir það mun hefðbundin framkvæmd hafa sinn gang,“ segir Guðbrandur.