Dimm haglél gengu yfir hluta höfuðborgarsvæðisins nú um klukkan eitt. Á skömmum tíma voru götur orðnar hvítar eins og meðfylgjandi myndir sýna.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að alltaf megi gera ráð fyrir að haglél fylgi annað slagið með skúrum í september. Nú séu yfir höfuðborgarsvæðinu háreistir skúraklakkar sem geti kreist úr sér hagl. 

Aðspurður hvort aðstæður sem þessar geti skapað hálku á vegum segir Óli ekki hættu á því. Um séu að ræða mesta lagi fimm mínútna skúrir og þar sem um séu að ræða snjó- eða íshagl þá verði jörð hvít, en það þurfi meira til svo það sitji lengi eftir og hafi áhrif á aðstæður á göngustígum eða á umferðargötum.

Það stóð líka heima og var haglið orðið að bleytu nokkrum mínútum síðar.

Hvít jörð blasti hins vegar víða við á norðanverðum Tröllaskaga í morgun og samkvæmt veðurspá má búast við éljum sums staðar um landið norðanvert. Snjóþekja , hálka eða hálkublettir eru víða á fjallvegum á Vestfjörðum og hálkublettir eru á Hellisheiði, Holtavörðuheiði og Þverárfjalli samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

Hvítt varð yfir götum og gangstéttum um tíma.

Andri Yrkill Valsson