Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að ekkert í persónuverndarlöggjöf komi í veg fyrir að upplýst verði um staðina sem tengjast nýlegum COVID-19 smitum. Sóttvarnaryfirvöld telja sig ekki hafa heimild til að nafngreina þá staði sem tengjast nýlegum smitum og eigendur staðanna vilja ekki láta nafngreina þá opinberlega, að því er fram kom á upplýsingafundi almannavarna í dag. Helga segir að almannahagsmunir og heilsa trompi viðskiptahagsmuni fyrirtækja.

„Frá Persónuverndarsjónarmiðum þá er alveg ljóst að fyrirtæki njóta ekki persónuverndar. Þannig að það er ekkert frá okkar bæjardyrum séð sem eigi að varna því að það sé upplýst sé um þá staði sem þarna um ræðir,“ segir Helga. „Það eru almannahagsmunir gríðarlegir undir í því. Alveg ljóst er að slík upplýsingagjöf myndi ekki fela í sér áfellisdóm fyrir staðina. Þetta er bara staðreynd að þarna gerðist þetta og getur gerst hvar sem er,“ segir Helga. Hún bendir einnig á að miklar upplýsingar hafi orðið opinberar um flautubarinn í Austurríki sem tengdist mörgum smitum í upphafi COVID-19 faraldursins.

Helga sagði að sóttvarnalæknir hefði komið til Persónuverndar nokkuð áður en faraldurinn hófst og farið yfir þær heimildir sem hann hefur. „Þær eru rúmar. Að sjálfsögðu þarf að vega og meta ýmsar aðstæður en, aftur, fyrirtæki njóta ekki persónuverndar og ekkert að slíkri upplýsingagjöf frá okkur.“

Ef maður getur leyft sér að segja, allan daginn, þá er það þannig að heilsa og almannahagsmunir skipta hér meginmáli,“ segir Helga.

„Við höfum verið í samskiptum við eigendur þessara staða, við höfum kvatt þá ítrekað til að koma fram og segja frá því,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra á upplýsingafundinum í dag. Eigendur staðanna hafa verið upplýstir og unnið með yfirvöldum. „En þeir hafa óskað eindregið eftir því að staðirnir þeirra séu ekki nefndir. Eftir ýmsum skilyrðum sem við verðum að starfa eftir teljum við okkur ekki hafa heimild til að nefna þá.“