Mikill munur er á hlutfalli þeirra sem fara um á einkabíl og þeirra sem vilja helst ferðast á þann máta. Fólk myndi frekar vilja fara um á hjóli, fótgangandi eða í strætó. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar. „Fólk segir að það sé of langt til að ganga, að veðrið sé ekki nógu gott til að hjóla, tímaskortur, á ekki reiðhjól, lélegt leiðakerfi strætó, fólk segist þurfa að nota bílinn í vinnu" segir Birgir Rafn Baldursson viðskiptatengill hjá Maskínu sem kom að framkvæmd könnunarinnar.

Maskína hefur reglulega skoðað ferðavenjur fólk eins og þær eru en í nýjustu könnuninni er skoðað hvernig vinnandi fólk á höfuðborgarsvæðinu myndi vilja ferðast ef það gæti. Í öllum mælingum kom í ljós mikill munur á hlutfalli þeirra sem ferðast oftast til og frá vinnu á einkabíl sem bílstjórar og þeirra sem vilja í raun ferðast á þann máta. Lítill munur er á ferðamáta eftir kyni fyrir utan að karlar eru líklegri en konur til að hjóla og eldri svarendur voru líklegri til að vilja helst fara um á einkabíl en þau yngri. 

Áhuginn á breyttum ferðavenjum er þó augljós: „Það er áhugavert að pæla í niðurstöðunum út frá því hverju er hægt að breyta og hverju ekki. Við getum ekki breytt veðrinu en getum við breytt því að það sé að jafnaði styttri vegalengdir fyrir fólk að fara á hverjum degi? Getum við búið til fleiri mínútur í deginum hjá þeim sem upplifa tímaskort? Og svo þeir sem eiga ekki reiðhjól, getur vinnan hjálpað til við það?" veltir Birgir upp. 

Skoða má niðurstöður könnunarinnar hér.

Hlusta má á viðtalið við Birgi í spilaranum hér að ofan